Árið að baki - 2021

Árið 2021 hefur sannarlega verið óvenjulegt í Ljósinu eins og annars staðar. Jákvæðni og gleði hefur verið einkennandi bæði hjá starfsmönnum og þeim sem sótt hafa Ljósið.

Hér fyrir neðan ætlum við að stikla á stóru yfir augnablikin stór og smá á árinu 2021.

Árið byrjaði með glæsibrag þegar Landsbyggðardeild Ljóssins hóf formlega göngu sína. Við fengum fulltrúa frá Kiwanis í heimsókn með rausnarlegan styrk og fyrrverandi þjónustuþegi í Ljósinu, Elín Kristín, lét hagnað af fyrstu framleiðslu vegan buffa renna beint í Ljósið sem þakklætisvott.

Við tókum á móti vorinu með margskonar verkefnum en þar bar hæst upptökur á nýrri herferð til að vekja athygli á Ljósavinum. Miðfellshlaupið var haldið í fyrsta sinn, þar sem íbúar í uppsveitum Árnessýslu hlupu í nafni endurhæfingarinnar í Ljósinu. Hún Erna okkar forstöðukona Ljóssins er einmitt fædd og uppalin á Miðfelli, virkilega gaman að heimsækja hennar heimahaga og hlaupa til góðs.

Mynd: Ragnar Th
Mynd: Ragnar Th
Mynd: Ragnar Th

Í júní settum við af stað herferð undir yfirskriftinni „Þinn stuðningur er okkar endurhæfing“. Með herferðinni var lögð áhersla þakklætið sem þjónustuþegar Ljóssins finna til þeirra sem styðja Ljósið, svokallaða Ljósavini. Leikstjóri herferðarinnar er Ninna Pálmadóttir, en hún nam leikstjórn í NYU Tisch School of the Arts, og hlaut hún Edduna fyrir myndina Paperboy. Verndari herferðarinnar er Eliza Reid.

Við fórum í okkar árlegu fjölskyldugöngu á Esjuna í júní. Það var vel mætt sem endranær, hver gekk á sínum hraða upp að sinni persónulegu vörðu. Þjálfarar og starfsfólk Ljóssins sáu um líflega upphitun og pepp á leiðinni upp. Virkilega skemmtileg samvera og útivera, og veðurguðirnir okkur hliðhollir eins og alltaf.

Mynd: Ragnar Th
Mynd: Ragnar Th

Við fögnuðum fjölbreytileikanum og skrifuðum undir samning við Sidekick Health en það markaði upphaf rannsóknarsamvinnu og þróun snjallforrits sem stutt getur við endurhæfinguna utan veggja Ljóssins. Iðjur fóru á Evrópuþing iðjuþjálfa í Prag en sökum Covid héldu þær þó í blíðuna í Borgarnes í staðinn og tóku þetta, eins og svo margt annað á árinu, í gegnum fjarfundabúnað. Í samvinnu við Kraft fengum við svo Ara Eldjárn í hús til að skemmta ungu mönnunum og hvetja þá til að sækja endurhæfingu ef þeir greinast með krabbamein.

Ljósið tók þátt í Síminn Cyclothon í ár. Auðunn Eiríksson fékk til liðs við sig helstu hjólreiðamenn landsins og hafnaði liðið í öðru sæti í keppninni. Verkefnið vatt skemmtilega upp á sig þegar ungur maður að nafni Svavar Burgundy tók að sér að ná mönnunum á myndband og Hugleikur Dagsson hannaði skemmtilegar myndir til að styðja við verkefnið sem hlaut þegar upp var staðið heitið Annað en þú heldur.

Móttaka Ljóssins er hjarta miðstöðvarinnar og það voru margir sem komu þar við á árinu. Líf og fjör einkenndi rýmið að vanda en eins og margir vita þá sjáum við alltaf ástæðu til að fagna. Við héldum til að mynda upp á Alþjóðlegan dag iðjuþjálfunar með glæsilegri köku og gleði í húsi en inn á milli setjumst við þar í bolla og skraf milli verkefna.

Allir hafa lagst á eitt að hjálpast að við sóttvarnir, bera grímur, spritta kaffivélina og alltaf má sjá bros á hverju auga á bakvið grímurnar. Við erum virkilega þakklát öllum fyrir að leggjast á eitt í þessum málum.