„Ákvað að gera það sem mér finnst skemmtilegt“

Ragna Gestsdóttir

Auke van der Ploeg var nýfluttur til Íslands þegar hann greindist með eistnakrabbamein í byrjun árs 2017. Hann segir að í fyrstu hafi krabbameinið verið feimnismál. Auke er í dag krabbameinslaus, ungur faðir og eiginmaður, og hefur fundið ástríðuna í veiðileiðsögn.

Auke van der Ploeg

Auke er mikill veiðimaður og sótti meðal annars fluguhnýtinganámskeið í Ljósinu / Mynd: Aðsend

„Það var mjög erfitt og óvænt líka að greinast af því ég var töluvert eldri en þeir sem greinast með eistnakrabbamein. Flestir sem greinast eru á aldrinum 17-25 ára, oftast mjög ungir karlmenn,“ segir Auke, sem var 29 ára þegar hann greindist. Í dag er hann 35 ára og í apríl á næsta ári fer hann í síðasta eftirlit vegna meinsins. Auke tekur fram að einnig séu karlmenn að greinast komnir yfir sjötugt, en eistnakrabbamein er algengt. Eftir að hann greindist frétti Auke að sonur föðurbróður hans hefði einnig greinst með eistnakrabbamein, þeir eru þó ekki nánir og veit Auke ekki til að aðrir í fjölskyldunni hafi greinst.

Auke játar því að krabbameinið hafi verið feimnismál fyrst í stað. „Við karlmenn erum stoltir og ég var það líka. Ég var alltaf þreyttur og með verki í eistunum og leitaði fyrst til læknis í Hollandi. Læknirinn var kona og mér fannst það erfitt að kona væri að skoða á mér kynfærin í þessum aðstæðum. Samt var ég búinn að vera það lengi með verki að ég vissi að ég yrði bara að láta mig hafa þetta,“ segir Auke. Ekkert fannst við rannsóknina. Eftir að Auke flutti til Íslands var hann enn verkjaður og leitaði til heimilislæknis hér, sem var einnig kona. Tinna eiginkona Auke starfar sem hjúkrunarfræðingur og var hún búin að hvetja hann til að fara og láta skoða sig. „Þetta var ekki auðvelt, en ég áttaði mig á að verkirnir voru alvarlegir og ég yrði að fara í skoðun, en í fyrstu voru þær mjög erfiðar.“

Auke van der Ploeg

Undanfarið ár hefur snúist um að finna jafnvægi í lífinu eftir að hafa orðið faðir og byrjað í nýrri vinnu / Mynd: Aðsend

Nýgreindur í nýju landi

Auke flutti til Íslands í október 2016 og bjuggu hann og Tinna hjá móður hennar þegar Auke greindist. „Það var mikið áfall að heyra að ég væri með krabbamein, sérstaklega af því ég var ekki með bakland hér, vini eða fjölskyldu. Ég fór strax í baráttuham, ég ætla að sigra þetta og gera mitt besta, en mér fannst þetta samt erfitt,“ segir Auke, sem kunni á þessum tíma ekkert í íslensku og segir fyrstu samskiptin við lækna ekki hafa verið góð.

„Mér var strax sagt að um væri að ræða algengt krabbamein og ég yrði góður eftir aðgerð. Eftir aðgerðina átti ég að vera kyrr heima og mátti ekki lyfta neinu. Sem var erfitt, ég er ungur og orkumikill maður og á erfitt með að sitja kyrr. Eftir aðgerðina fékk ég þau tíðindi að ég hefði verið með æxli sem var byrjað að vaxa inn í æð og því líkur á að sjúkdómurinn væri að grassera meira og ég yrði því að fara strax í lyfjameðferð, sem var annað áfall,“ segir Auke.

Parið var byrjað að skipuleggja lífið og framtíðina eins og ungt fólk gerir, höfðu verið að íhuga fasteignakaup og keyptu fasteign þar sem Auke hafði verið sagt að hann yrði heill heilsu eftir aðgerðina. „Okkur langaði líka að eignast börn og vorum ekki viss hvort það væri mögulegt. Þetta tímabil var því erfitt fyrir konuna mína líka,“ segir Auke sem lauk meðferð í apríl 2017 og fékk þá niðurstöðu að hann væri krabbameinslaus. „Sem betur fer fékk ég góða niðurstöðu. Hárið fór og ég missti allt þol og þrek þrátt fyrir bara eina lyfjameðferð og ég hugsa til fólks sem þarf að fara í margar slíkar.“

Foreldrar Auke komu hingað til lands frá Hollandi til að styðja son sinn og segir Auke að hann hafi notið mikils stuðnings frá sínu fólki, bæði hér á landi og í Hollandi. Eftir að krabbameinsmeðferðinni lauk, hafi hann þó orðið mjög þunglyndur.

„Ég var laus við krabbameinið, var orkulaus, ekki að vinna og nennti ekki að gera neitt. Ég var heldur ekki að heyra jafnmikið í fólki og þegar ég var í meðferðinni. Ég frétti það seinna að algengt væri að fólk dytti niður í þunglyndi eftir krabbameinsmeðferð og ég var á þeim stað, sérstaklega af því ég var einn, ég átti ekki ennþá vini hér á landi. Tinna þurfti að fara aftur til vinnu og ég var bara einn heima orkulaus í sófanum, þetta var ekki „my happy place.“

Lærði íslensku í Ljósinu

Auke fór að mæta í Kraft og síðan dró Tinna hann í Ljósið að hans sögn. „Ég mætti í fyrsta skipti í Ljósið á fyrirlestur þegar ég var í lyfjameðferðinni. Ég kunni ekkert í íslensku þá og skildi ekki neitt. Mér leið illa, fékk kvíðakast og þurfti að fara út til að jafna mig. Konan mín hlustaði á fyrirlesturinn og skráði okkur. Ég byrjaði síðan strax í endurhæfingu hjá Hauki sjúkraþjálfara. Þegar ég datt niður í þunglyndið þá var ég allt annar maður, ég var bara leiðinlegur, vondur og hræddur við sjálfan mig. Það var mikil reiði í mér. Konan mín sagði að við yrðum að ræða við sálfræðing sem við gerðum í Ljósinu. Ég var alls ekki sáttur með það og fannst hann ekki standa sig vel. En það var líka af því að ég var á slæmum stað,“ segir Auke, sem ræddi einnig við iðjuþjálfa.

„Ég var með of háar væntingar til sjálfs míns og iðjuþjálfinn benti mér á að taka lítil skref í einu. Ég sá líka miklar bætingar í tímum hjá Hauki og var að mæta í ræktina tvisvar í viku. Síðan byrjaði ég á fluguhnýtinganámskeiði með gömlum körlum sem töluðu ekki orð í ensku. Ég er mikill veiðimaður og að hnýta flugur og heyra veiðisögur frá körlunum var mjög gefandi. Ég var mjög duglegur að mæta í Ljósið og var því fljótur að læra íslenskuna. Ég var alltaf að bæta við mig, fór líka á leirnámskeið og fleira og fannst gaman að kynnast fólki. Erna bauð mér að koma og hjálpa til í eldhúsinu, fyrst sem sjálfboðaliði og síðan sem verktaki. Ég var næstum á hverjum degi í Ljósinu og það bjargaði mér gjörsamlega.“

Auke ákvað hins vegar að gera það sem hann langaði helst og konan studdi hann í því. „Lífið er núna og mig langaði að gera það sem mér fyndist skemmtilegt, þannig að ég ákvað að gera það sem mér finnst skemmtilegt"

Valdi það skemmtilega

Auke mætti einnig í Kraft og þar fór hann í jöklaferðir með Ágústi leiðsögumanni, sem einnig hafði greinst með krabbamein. „Mér fannst þetta geggjað, gaman að fara í ísklifur og mig langaði að gera eitthvað svipað. Ég var búinn að hugsa um að fara í leiðsögunám í ævintýraferðamennsku hjá Keili. Námið var hins vegar frekar dýrt, kostaði um 1,5 milljón, auk þess sem það þurfti að kaupa mikið af útivistardóti,“ segir Auke, sem á þessum tíma vann í Vínbúðinni.

Auke ákvað hins vegar að gera það sem hann langaði helst og konan studdi hann í því. „Lífið er núna og mig langaði að gera það sem mér fyndist skemmtilegt, þannig að ég ákvað að gera það sem mér finnst skemmtilegt,“ segir Auke, sem fór í námið. Kórónuveirufaraldurinn setti þó aðeins strik í reikninginn eins og hjá öllum öðrum. „Það tók um eitt og hálft ár að fara í gegnum námið með hléum og hópurinn var ekki jafnt þéttur og oft er. Nokkrir kláruðu ekki námið vegna COVID, við byrjuðum 14, en það voru sjö sem kláruðu,“ segir Auke. „Námið var geggjað gaman, mikið af vettvangsferðum, ísklifur, fyrsta hjálp í óbyggðum. Námið var mikil upplifun og ég lærði mikið um ævintýraferðamennsku. Hvernig við erum að vinna með öryggi hér á landi og í öðrum löndum,“ segir Auke, sem segir námið það fyrsta sem hann klárar.

„Ég er með ADD og hafði áður reynt við háskólanám í Hollandi og kláraði aldrei neitt,  átti erfitt með að einbeita mér og kannski fannst mér námið ekki nógu skemmtilegt. Kannski var ég líka of mikill partýgaur. Leiðsögunámið var fyrsta námið þar sem ég var að fá góðar einkunnir og kláraði sem var góð tilfinning,“ segir Auke, sem útskrifaðist í október. Í lok október fæddist síðan sonur þeirra Tinnu.

„Við vorum búin að reyna í nokkur ár að eignast barn, sæðið var frosið, en við fórum í test og allt átti að vera í góðu lagi hjá okkur. Eftir að við höfðum reynt í tvö ár varð Tinna ófrísk, en missti fóstrið. Við reyndum þó að horfa jákvætt á það að við gátum eignast barn og héldum áfram að reyna, og ári síðar varð hún ófrísk aftur,“ segir Auke. „Árið hefur snúist um að finna jafnvægi í lífinu, sonur okkar nýfæddur, vera pabbi og vera í nýrri vinnu.“

Auke van der Ploeg

Tinna, eiginkona Auke, hvatti hann til að elta drauminn og sækja leiðsögunám í ævintýraferðamennsku hjá Keili / Mynd: Aðsend

Þrátt fyrir að Auke hafi í fyrstu verið feiminn yfir að hafa greinst með krabbamein, þá hefur hann talað opinskátt um krabbameinið og sína reynslu. Hjá Ljósinu var hann í spjallhópi með ungum karlmönnum og 2018 kom hann fram í herferð Krafts þar sem einstaklingar deildu sinni reynslu. „Ég fékk mjög jákvæðar athugasemdir og spurningar og ráðlagði mönnum að fara í skoðun fyrr en seinna.

Veiðin heillaði

Þrátt fyrir að Auke hafi upphaflega byrjað í leiðsögunáminu með því markmiði að fara í ævintýraferðamennsku, þá endaði hann á öðrum stað, sem veiðileiðsögumaður og vinnur sem verktaki hjá Fish Partner.

„Þegar ég útskrifaðist þá var það kanadískur veiðimaður sem hvatti mig til að fara í veiðileiðsögnina. Veiði er mitt áhugamál og ég hugsaði mikið um hvort ég ætti að vinna við áhugamálið. Ég elska að fara í fjallgöngutúra, jöklaferðir, ísklifur og allt það og í framtíðinni þá get ég unnið með slíkar ferðir líka og er opinn fyrir því. Ég þurfti líka að kaupa jeppa til að geta keyrt upp á hálendi, við erum að labba og klifra til að veiða undir fossum, ég er að hjálpa fólki að vaða yfir vötn. Vinnan er mikið ævintýri og þarf líka að hugsa mikið um öryggi,“ segir Auke, sem segist alveg geta hugsað sér að stofna eigið fyrirtæki í framtíðinni.

„En til þess þarf ég að eiga ákveðið fjármagn. Það er mikil samkeppni í starfinu og það eru flestir vinir, en ekki allir. Starfið snýst mikið um að kynnast fólki og ég er að kynna mig, og vinn ekki bara fyrir Fish Partner, ég hef líka tekið að mér leiðsögn fyrir aðra. Núna í sumar var hins vegar mikið að gera og ég vann eingöngu fyrir þá, var mikið að heiman og nokkra daga í einu. Fólkið sem afbókaði ferðir 2020 kom allt í ár og svo voru margir sem höfðu bókað veiði til dæmis til Bandaríkjanna og Alaska, sem var síðan allt lokað, og þá kom það til Íslands. Þannig að þetta var tvöfalt álag og það er líka skortur á leiðsögumönnum,“ segir Auke, sem ákvað að taka sér frí frá leiðsögninni í vetur. „Ég lofaði konunni að vinna ekki við þetta í vetur og er því að vinna í Vínbúðinni og er meira í pabbahlutverkinu núna þegar hún er farin að vinna aftur.“

Þrátt fyrir að Auke hafi í fyrstu verið feiminn yfir að hafa greinst með krabbamein, þá hefur hann talað opinskátt um krabbameinið og sína reynslu. Hjá Ljósinu var hann í spjallhópi með ungum karlmönnum og 2018 kom hann fram í herferð Krafts þar sem einstaklingar deildu sinni reynslu. „Ég fékk mjög jákvæðar athugasemdir og spurningar og ráðlagði mönnum að fara í skoðun fyrr en seinna. Ekki væri heldur alltaf um krabbamein að ræða og þá væri gott að vita það,“ segir Auke, sem bendir einnig á þá staðreynd að karlmenn eru seinni að leita sér hjálpar. Sjálfur er hann þakklátur fyrir tíma sinn í Ljósinu.

„Ég er ótrúlega þakklátur fyrir Ljósið og það sem þau hafa gert fyrir mig og tímann sem ég var þar. Það er svo frábært að koma í Ljósið að hitta fólk, fá sér kaffibolla, hollan og góðan mat, hlusta á fyrirlestur, fara að mála eða leira. Þegar maður er ungur og hraustur þá er maður ekki að hugsa um að fara og leira einhvern pott, en þegar maður er veikur þá er það svo dýrmætt. Stundum þarf risaskref til að mæta í fyrsta sinn í Ljósið, en ég hvet fólk til að taka það skref, maður getur ekki gert þetta einn.“