Í rúmlega 20 ár hef ég unnið með fólki í kennslu, heilun og meðferðum, og ég hef séð að streita er vandamál í lífi stórs hluta skjólstæðinga minna og jafnvel meginorsök þeirra kvilla sem leitað er lausna við. Nútímalíf býður upp á marga streituvalda og það er mér mikið hjartans mál að hjálpa fólki að auðvelda og bæta líf sitt. Mínar meðferðir fela í sér slökun, heilun, tónheilun og rétta öndun en það er einnig ótrúlegt hvernig hægt er að fækka streituvöldum með því að tileinka sér einfalda hluti eins og að segja „nei“ án útskýringa.
Oft heyrum við talað um það að streita sé einn stærsti orsakavaldur nútíma sjúkdóma. Hvernig má það vera? Streita, eða stress eru viðbrögð líkamans við alls kyns álagi og áreiti og er streita því andlegt og líkamlegt ástand sem skapast við ákveðnar aðstæður. Streituviðbragð er mikilvægur hluti varnarkerfis líkamans sem gerir okkur kleift að bregðast við hættu. Hún er lífsnauðsynleg í réttum skömmtum en ef hún verður viðvarandi og of mikil getur hún orðið okkur skaðleg á margan hátt.
Það er bæði erfitt að skilgreina streitu og mæla hana og að takast á við hana er oft tímafrekt og flókið. Þess vegna er gjarnan tilhneiging til að horfa fram hjá vandamálinu og jafnvel afneita því. Við lítum oft á streitu sem eitthvað ósýnilegt og óáþreifanlegt, eitthvað sem kemur utan frá og við getum ekki brugðist við. Það er einnig mjög auðvelt að aðlagast streituástandi og þar af leiðandi ekki átta sig á því hvað hún er að hafa mikil áhrif líkamlega og andlega.
Einkenni streitu geta verið margs konar, bæði líkamleg og andleg. Dæmi um líkamleg einkenni eru t.d. hraðari hjartsláttur og hækkaður blóðþrýstingur, hækkað kólesterol og aukin framleiðsla á hormónum sem hafa áhrif á meltingu og grunnbrennslu, ásamt bólgumyndun sem getur valdið verkjum og öðrum kvillum. Dæmi um andleg einkenni streitu eru t.d. minnistruflanir, einbeitingarskortur, neikvæðni, dómgreindarleysi, einmanaleiki og einangrun.
Sumir þrífast í stressi
Þegar við erum stressuð hefur það áhrif á val okkar. Við veljum t.d. öðruvísi mat, tónlist, klæðnað og annað slíkt. Oft kemur þá val okkar ekki frá meðvituðum stað og við erum ekki endilega að velja það sem er best fyrir okkur. Stress hefur áhrif á allt í lífi okkar. Það getur haft áhrif á einfalda hluti eins og hjartslátt en það getur líka haft áhrif á hugsanir okkar og geð og getur jafnvel breytt genum. Sumir þrífast á stressi og elska það svo mikið að þeir þora ekki að sleppa því.
Til þess að skilja eðli og umfang streitu þurfum við að gera greinarmun á streituvaldinum sem fær líkama okkar til að bregðast við, og streituviðbrögðunum sem eru svar líkamans við hinu ytra áreiti. Streituvaldurinn er oftast utanaðkomandi þáttur sem getur komið okkur úr jafnvægi. Veist þú hverjir eru streituvaldarnir í þínu lífi?