Að duga eða drepast, að hvílast og melta

Margrét Arna Arnardóttir

Arna, íþróttafræðingur og jógakennari í Ljósinu, barðist um þó nokkurt skeið við hamlandi ofsakvíða en með slökun og hugleiðslu náði hún góðum tökum á líðan sinni. Í dag leiðir hún vinsæla jóga- og slökunartíma í Ljósinu og miðlar hvernig við getum öll náð betri tökum á streitunni í daglegu lífi.

Margrét Arna Arnardóttir leiðir jóga og slökun í Ljósinu / Mynd; Ljósið

Í rúmlega 20 ár hef ég unnið með fólki í kennslu, heilun og meðferðum, og ég hef séð að streita er vandamál í lífi stórs hluta skjólstæðinga minna og jafnvel meginorsök þeirra kvilla sem leitað er lausna við. Nútímalíf býður upp á marga streituvalda og það er mér mikið hjartans mál að hjálpa fólki að auðvelda og bæta líf sitt. Mínar meðferðir fela í sér slökun, heilun, tónheilun og rétta öndun en það er einnig ótrúlegt hvernig hægt er að fækka streituvöldum með því að tileinka sér einfalda hluti eins og að segja „nei“ án útskýringa.

Oft heyrum við talað um það að streita sé einn stærsti orsakavaldur nútíma sjúkdóma. Hvernig má það vera? Streita, eða stress eru viðbrögð líkamans við alls kyns álagi og áreiti og er streita því andlegt og líkamlegt ástand sem skapast við ákveðnar aðstæður. Streituviðbragð er mikilvægur hluti varnarkerfis líkamans sem gerir okkur kleift að bregðast við hættu. Hún er lífsnauðsynleg í réttum skömmtum en ef hún verður viðvarandi og of mikil getur hún orðið okkur skaðleg á margan hátt.

Það er bæði erfitt að skilgreina streitu og mæla hana og að takast á við hana er oft tímafrekt og flókið. Þess vegna er gjarnan tilhneiging til að horfa fram hjá vandamálinu og jafnvel afneita því. Við lítum oft á streitu sem eitthvað ósýnilegt og óáþreifanlegt, eitthvað sem kemur utan frá og við getum ekki brugðist við. Það er einnig mjög auðvelt að aðlagast streituástandi og þar af leiðandi ekki átta sig á því hvað hún er að hafa mikil áhrif líkamlega og andlega.

Einkenni streitu geta verið margs konar, bæði líkamleg og andleg. Dæmi um líkamleg einkenni eru t.d. hraðari hjartsláttur og hækkaður blóðþrýstingur, hækkað kólesterol og aukin framleiðsla á hormónum sem hafa áhrif á meltingu og grunnbrennslu, ásamt bólgumyndun sem getur valdið verkjum og öðrum kvillum. Dæmi um andleg einkenni streitu eru t.d. minnistruflanir, einbeitingarskortur, neikvæðni, dómgreindarleysi, einmanaleiki og einangrun.

Sumir þrífast í stressi

Þegar við erum stressuð hefur það áhrif á val okkar. Við veljum t.d. öðruvísi mat, tónlist, klæðnað og annað slíkt. Oft kemur þá val okkar ekki frá meðvituðum stað og við erum ekki endilega að velja það sem er best fyrir okkur. Stress hefur áhrif á allt í lífi okkar. Það getur haft áhrif á einfalda hluti eins og hjartslátt en það getur líka haft áhrif á hugsanir okkar og geð og getur jafnvel breytt genum. Sumir þrífast á stressi og elska það svo mikið að þeir þora ekki að sleppa því.

Til þess að skilja eðli og umfang streitu þurfum við að gera greinarmun á streituvaldinum sem fær líkama okkar til að bregðast við, og streituviðbrögðunum sem eru svar líkamans við hinu ytra áreiti. Streituvaldurinn er oftast utanaðkomandi þáttur sem getur komið okkur úr jafnvægi. Veist þú hverjir eru streituvaldarnir í þínu lífi?

Veist þú hverjir streituvaldarnir eru í þínu lífi?

Oft eru þeir lúmskir og eitthvað sem við raunverulega gerum okkur ekki grein fyrir. Það getur verið erfitt að átta sig á því. Oft er það þannig að það sem við höldum að sé okkur skaðlegt er eitthvað sem gerir okkur gott og gefur okkur drifkraft en aðrir hlutir sem við spáum ekki í geta verið að valda miklum skaða. Best er ef þú getur gert þér grein fyrir því hverjir eru mestu streituvaldarnir í þínu lífi. Hvað er það sem lyftir þér upp og fyllir þig af lífsorku og krafti? Hvað er það sem dregur úr þér? Er eitthvað sem þú getur sleppt til að einfalda líf þitt?

Verkfærakista streitunnar

Þar sem streita og stress virðast vera svona algeng, hvað er þá er hægt að gera? Það eru mörg verkfæri sem við eigum í kistunni til að draga úr henni, t.d. hægari öndun, góður svefn, vatnsdrykkja, jákvæðni, jóga, hugleiðsla og slökun.

En af hverju slökun? Slökun er tækni sem gerir okkur kleift að róa hugann, slaka á vöðvum líkamans og draga þannig úr kvíða og spennu. Slökun ætti að vera hluti af daglegu lífi, daglegum venjum á sama hátt og að hreyfa sig. Mikilvægt er að taka frá tíma fyrir slökun og virða þann tíma. Með slökun má halda spennu í skefjum þannig að við erum betur í stakk búin til að takast á við viðfangsefni daglegs lífs. Það sem slökun gerir fyrir okkur er að vinda ofan af líkamanum, slaka á huganum og auka almenna vellíðan. Slökun slekkur á streituviðbrögðum og í stað þess að brjóta sig niður fer líkaminn í að heila sig og gera við. Slökun endurhleður einnig taugakerfið. Ef við erum alltaf með taugakerfið í botni eins og er mjög algengt út af því hvernig við lifum erum við alltaf þreytt. Taugakerfi okkar þarf hvíld og ef það fær hana ekki þá endum við á vegg eða í kulnun. Útþanið taugakerfi veldur vítahring spennu. Slíkur vítahringur getur haft þau áhrif að þú eigir erfitt með svefn þrátt fyrir að vera jafnvel örmagna af þreytu. Þetta ástand getur síðan haft enn alvarlegri fylgikvilla eins og kulnun og aðra sjúkdóma. Slökun er því mikilvæg til að læra að hvílast, vinna á móti svefnleysi, kvíða, áhyggjum, verkjum og ýmis konar streitu.

Með slökun getur þú upplifað:

  • Minni spennu og kvíða
  • Aukið jafnvægi og það eru færri hlutir sem valda þér spennu
  • Aukna einbeitingu og betri heilsu
  • Hvíld, frið og endurnæringu
  • Aukna orku og minni þreytu
  • Aukna vellíðan og bætt lífsgæði

Hvernig hljómar það?