Galakvöld til styrktar Ljósinu

Heiða Eiríksdóttir

Samstarfsfélagarnir og vinirnir Matthías Ingi Sævarsson og Patrekur Ísak Steinarsson, oftast kallaðir Matti og Patti, höfðu samband við okkur í Ljósinu í sumar. Þeir höfðu það metnaðarfulla markmið um að halda glæsilegan kvöldverð til styrktar Ljósinu.

Patti og Matti stóðu vaktina á kvöldverðunum með bros á vör / Mynd: Ragnar Th.

Báðir tengjast þeir einstaklingum sem sótt hafa þjónustu í Ljósinu og vildu svo gjarnan gefa til baka fyrir sitt fólk. Þeir starfa báðir í  veitingageiranum, Patrekur Ísak er framreiðslumaður og Matthías Ingi er matreiðslumaður. Báðir starfa þeir á veitingastaðnum Rvk Meat.

Fræið varð svo sannarlega að fallegu blómi og miðasala á kvöldverðinn gekk vonum framar, og seldist upp í rjáfur. Hinir ýmsu birgjar lögðu verkefninu lið með beinum styrk og/eða í formi hráefnis fyrir kvöldið. Allur ágóðinn rann til Ljóssins.


Þrátt fyrir sveiflur í COVID- faraldinum og frestanir, þá var þessi glæsilegi viðburður haldinn á veitingastaðnum Sjálandi í Garðabæ 7.október síðastliðinn.  Kvöldið var hið glæsilegasta, staðurinn skartaði sínu fegursta og einstakt útsýni út á Arnarnesfjörðinn gerði þetta extra. Á matseðlinum var dýrindis þriggja rétta kvöldverður sem þeir félagar settu saman af kostgæfni.


Brynja Dan sá um veislustjórn. Jón Jónsson, Eyþór Ingi og uppistandshópurinn Opið samband tróðu upp af sinni alkunnu snilld og Steini úr Quarashi þeytti skífum fyrir gesti.

Gestir áttu góða kvöldstund og voru sammála um að viðburðurinn hafi heppnast sérstaklega vel eins og sjá má á myndunum sem Ragnar Th tók fyrir okkur.


Við hjá Ljósinu erum virkilega þakklát þessum ungu mönnum sem láta verkin tala til góðs. Takk!