„Það var mjög erfitt og óvænt líka að greinast af því ég var töluvert eldri en þeir sem greinast með eistnakrabbamein. Flestir sem greinast eru á aldrinum 17-25 ára, oftast mjög ungir karlmenn,“ segir Auke, sem var 29 ára þegar hann greindist. Í dag er hann 35 ára og í apríl á næsta ári fer hann í síðasta eftirlit vegna meinsins. Auke tekur fram að einnig séu karlmenn að greinast komnir yfir sjötugt, en eistnakrabbamein er algengt. Eftir að hann greindist frétti Auke að sonur föðurbróður hans hefði einnig greinst með eistnakrabbamein, þeir eru þó ekki nánir og veit Auke ekki til að aðrir í fjölskyldunni hafi greinst.
Auke játar því að krabbameinið hafi verið feimnismál fyrst í stað. „Við karlmenn erum stoltir og ég var það líka. Ég var alltaf þreyttur og með verki í eistunum og leitaði fyrst til læknis í Hollandi. Læknirinn var kona og mér fannst það erfitt að kona væri að skoða á mér kynfærin í þessum aðstæðum. Samt var ég búinn að vera það lengi með verki að ég vissi að ég yrði bara að láta mig hafa þetta,“ segir Auke. Ekkert fannst við rannsóknina. Eftir að Auke flutti til Íslands var hann enn verkjaður og leitaði til heimilislæknis hér, sem var einnig kona. Tinna eiginkona Auke starfar sem hjúkrunarfræðingur og var hún búin að hvetja hann til að fara og láta skoða sig. „Þetta var ekki auðvelt, en ég áttaði mig á að verkirnir voru alvarlegir og ég yrði að fara í skoðun, en í fyrstu voru þær mjög erfiðar.“