„Ég missti heyrn á hægra eyra árið 2017 og hélt að síminn minn væri gamall, þannig að ég keypti mér nýjan síma og hann var líka bilaður. Þá áttaði ég mig á því að það var ég sem var ekki að heyra,“ segir Vala og hlær. „Ég var ófrísk á þessum tíma, þannig að ég þurfti að bíða með greiningarferlið. Árið 2018 eignaðist ég barnið og greindist með góðkynja heilaæxli sem lá að heyrnartaug. Ég var í fæðingarorlofi, fór síðan í sjúkraleyfi, í aðgerð og byrjaði svo í endurhæfingu hjá Virk sem reyndist mér ágætlega.“
Vala segir að á þessum tíma hafi henni ekki fundist hún eiga heima í Ljósinu. „Líklega var það einhver minnimáttarkennd, þar sem mér fannst ég ekki með alvöru krabbamein. En það var eitthvað sálrænt sem sat eftir hjá mér af því það eru ákveðin atriði sem fylgja því að greinast með æxli, og þá leitaði ég til Ljóssins, þar sem var vel tekið á móti mér,“ segir Vala, sem fór síðasta sumar í aðgerð til Hamborgar í Þýskalandi. „Þetta var ekki hefðbundin geislameðferð heldur hnífur, svokallaður „gamma knife“ þar sem skorið var burt það sem ekki náðist í aðgerðinni hér heima.
Ljósið hélt vel utan um mig í þessu ferli, þetta var í miðju COVID, ég var með pínulítið barn og annað þriggja ára þegar ég greindist og átti bara ótrúlega lítið inni. Ég var líka með mikinn kvíða yfir hvað tæki við.“