Formannspistill

Þakklæti fyrir eljusemi og góðan anda

Mjöll Jónsdóttir, Formaður stjórnar Ljóssins

Í fyrra þegar þáverandi formaður stjórnar Ljóssins, Ragnheiður Agnarsdóttir, skrifaði pistil sinn fyrir Ljósablaðið þá talaði hún um síðasta ár sem ár mikilla áskorana. Sem var satt. Flest okkar á þeim tíma óraði hins vegar ekki fyrir því að hér, einu ári síðar, væri aftur hægt að tala um ár áskorana og takmarkana vegna Covid.

Það er kannski okkar besti kostur sem þjóð að við erum bjartsýn, við erum viss um að þetta reddist, við leggjumst á eitt, aðlögumst og gerum það sem þarf. Það er hins vegar ekkert lítið mál að aðlagast ítrekað og leggjast á eitt til lengri tíma og þrátt fyrir stundum sterka vinda og ólgusjó þá erum við á góðri siglingu í gegnum tímabil sem seinna verður hreinlega talað um í sögubókum.

Með þetta í huga þá langar mig að gera það að umfjöllunarefni mínu núna, þegar ég sest niður til að skrifa pistil sem formaður stjórnar Ljóssins, að það stendur áberandi upp úr á þessu ári hversu vel starfsfólki Ljóssins hefur tekist að bregðast við erfiðum aðstæðum og leggjast á eitt.

Ég hef setið í stjórn Ljóssins í nokkur ár. Við í stjórninni höfum alltaf verið afar ánægð með þann starfsmannahóp sem hér sinnir daglegum störfum. Núna hins vegar veit ég að ég get talað fyrir hönd allra í stjórninni þegar ég segi að við erum ekki bara ánægð með starfsfólk Ljóssins heldur gríðarlega þakklát fyrir einstaka aðlögunarhæfni og vilja til verka, stolt af einstökum árangri og þakklát fyrir eljusemina og þann góða anda sem þrátt fyrir allt hefur tekist að skapa bæði meðal starfsmanna og þjónustuþega hússins.

Það hefur verið einstakt að sjá hvernig hópurinn hefur tekist á við áskoranir síðustu missera og tekist að snúa mjög flóknum og oft takmarkandi aðstæðum upp í skapandi og fjölbreytt tækifæri til vaxtar og þróunar á þeirri þjónustu sem hér er veitt. Þegar reynir á sjáum við úr hverju fólk er gert og við í Ljósinu erum að sjá fólk blómstra. Geri aðrir betur!

Starfsfólk Ljóssins er því heiðursfólk þessa pistils og þemað er þakklæti og virðing.

Á þessu krefjandi ári hefur orðið sprenging í aðsókn í þjónustu Ljóssins. Það hefur fjölgað mikið í hópi nýrra þjónustuþega og heimsóknum í húsið til að sækja þjónustu hefur fjölgað langt umfram væntingar. Það er alveg sama hver á í hlut, hver einasti sjálfboðaliði, starfsmaður, stjórnandi, verktaki í afmörkuðum verkefnum eða forstöðukona, hér hafa allir aðlagað, lagst á eitt og skapað sterka og góða heild.

Ég hvet þig kæri lesandi til að færa starfsfólki Ljóssins þakkir næst þegar þú getur. Ég hvet þig til að styrkja starfsemi Ljóssins sem Ljósavinur og þannig létta undir og gera okkur kleift að halda áfram að gera það sem við gerum best. Við erum nefnilega alls ekki hætt að blómstra og munum áfram leggjast á eitt við það að veita krabbameinsgreindum og aðstandendum þeirra framúrskarandi þjónustu.

Mjöll Jónsdóttir

Formaður stjórnar Ljóssins