„Ég var farinn að finna til við þvaglát, mjög tíð þvaglát og við rannsóknir kom í ljós að þvagblaðran var full af æxlum, það voru þrjú stór æxli. Læknirinn sem speglaði mig sagði að í 70% tilvika væri um að ræða æxli sem væri hægt að skrapa burt, en 30% væru eins og útsæðiskartafla sem þú setur niður að vori og svo eru komnar æðar út frá henni og eitt af þessum þremur var af þeirri tegund. Þarna var ég kominn í aðstæður sem ég hafði ekki verið í áður og langaði ekki að vera í,“ segir Hafþór, sem greindur var um mánaðamótin mars/apríl. Hann segist þó hafa verið undir læknishendi allan veturinn á undan, talið hafi verið að um sýkingu væri að ræða og hann afgreiddur með lyfjum. „Ég var alveg að gefast upp, þetta var bara orðin uppgjöf í restina. Ég hringdi í lækninn og sagði lyfin ekki gera neitt fyrir mig. Og ég er hissa á hvað þetta gekk hratt fyrir sig eftir það. Það tók tíu daga frá því ég var sendur í myndatökur eftir skoðun í Glæsibæ, ég fór í sneiðmyndatöku og daginn eftir var hringt og niðurstaðan ljós. Á þriðja degi átti ég að mæta í speglun. þegar læknirinn var búinn að þræða upp í blöðru sagði hann: „það er bara svona, hér eftir tölum við bara um krabbamein,“ segir Hafþór.
Eiginkonan beið hjá dóttur þeirra og fór Hafþór til þeirra og greindi þeim frá niðurstöðunum. „Og það var eins og einhver hefði dáið, einhver nákominn. Ég ætla ekki að segja að heimurinn hafi hrunið en manni var brugðið og ég vissi ekki hvernig ég átti að tækla þessar aðstæður. Það var strax tekin ákvörðun um lyfjagjöf og sumarið fram í september fór í það, þá var ég skorinn og allt fjarlægt úr kviðarholinu sem hægt var.“
Hafþór er 67 ára og var nýlega hættur að vinna þegar hann greindist. „Það er boðið upp á að gera starfslokasamning 65 ára og ég þáði það og ætlaði svona að fara að njóta lífsins og hafa gaman af þessu, fór í sumarfrí 1. júní og í september var ég kominn undir læknishendur.“
Hafþór og eiginkona hans eru búsett á Eyrarbakka og hafa gert allan sinn hjúskap. „Ég er úr Vestmannaeyjum, flutti með foreldrum mínum til Reykjavíkur á sjötta ári. Þau skildu síðan og ég var sendur í sveit í Húnavatnssýslu og var þar í þrjú ár og sjö sumur. Ég átti ömmu og afa á Eyrarbakka og sótti svolítið þangað og kláraði mína skólagöngu þar. 1968 kynntist ég kærustunni minni sem er enn þá kærastan mín. Saman eigum við þrjú börn, ég átti eina dóttur fyrir, og níu barnabörn,“ segir Hafþór beðinn um að segja frá hver hann er og hvaðan hann kemur. „Ég var í fangelsi í tæp 40 ár sem starfsmaður,“ segir hann glettnislega, „og þar áður var ég verkstjóri í frystihúsi í nokkur ár, og sjómaður til að byrja með.“