Ný námskeið í Ljósinu

Eftur Hólmfríði Einarsdótturog Guðnýju Katrínu Einarsdóttur

Ljósið býður mjög gott úrval námskeiða, bæði fyrir þá sem hafa greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra. En hver er tilgangur þessa námskeiða og hvernig verða þau til? Hólmfríður Einarsdóttir og Guðný Katrín Einarsdóttir, iðjuþjálfar í Ljósinu, veita okkur innsýn í hvernig námskeiðin í Ljósinu eru þróuð.

Hólmfríður Einarsdóttir, iðjuþjálfi í Ljósinu er ein af umsjónarkonum Hver er ég? / Mynd: Ragnar Th.

Það er ein af okkar frumþörfum að hafa hlutverk og verkefni sem eru hæfilega áhugaverð og krefjandi. Við krabbameinsgreiningu og meðferð verður oft truflun á hlutverkum. Endurhæfingin í Ljósinu miðar að því að efla og styrkja hvern og einn, líkamlega, andlega og félagslega en einnig að aðlagast nýjum aðstæðum. Markmiðið er að geta sinnt eigin heilsu og þeim verkefnum sem skipta einstaklinginn mestu máli, verða virkur þátttakandi í samfélaginu. Þátttaka í námskeiðum skipa stóran sess í endurhæfingu í Ljósinu og hefur þróun þeirra verið mikilvægur hluti af starfssemi Ljóssins frá upphafi. Lagt er upp með að hafa námskeiðin fjölbreytt, þverfagleg og að þau nýtist Ljósberum frá upphafi til loka endurhæfingar.

En hvernig verða þessi námskeið til?

Iðjuþjálfarnir í Ljósinu, sem og annað fagfólk, leggur mikið á sig til að vera á tánum og fylgjast með þörfinni fyrir fræðslu. Mikil þróunarvinna hefur því átt sér stað síðustu ár sem sýnir sig í ólíkum námskeiðum. Starfsfólk Ljóssins er í miklum samskiptum við Ljósbera. Ekki einungis í viðtölum heldur líka í óformlegu spjalli sem á sér stað í jafningjahópum, handverki og yfir kaffibolla í sófanum. Með virkri hlustun í þessum samræðum kemur fram hver þörfin er sem nýtist í áframhaldandi þróunarvinnu. Tilgangur námskeiða er tvenns konar. Annars vegar er það fræðslan og hins vegar að vera vettvangur fyrir jafningjastuðning.

Námskeiðið „Tímamót, ný hlutverk“ varð til í kjölfar þess að starfsfólk Ljóssins hafði skynjað þessar vangaveltur hjá fólki sem nálgast útskrift í Ljósinu – fólk er ánægt hér og vill helst ekki sleppa tökunum af þessum góða stað. Því kviknaði sú hugmynd að halda námskeið til að styðja fólk í að taka næstu skref

Guðný Katrín og Rúna eru umsjónarkonur námskeiðsins Tímamót, ný hlutverk / Myndir: Ragnar Th.

Tímamót, ný hlutverk og Hver er ég?

Að endurhæfingu lokinni er misjafnt hvort þjónustuþegar snúa aftur til starfa á vinnumarkaði, aðstæður hafa breyst, heilsan er stundum að hindra þá, en aðrir eru einmitt að komast á eftirlaunaaldurinn. Hvað tekur þá við? Hvernig er hægt að skapa sér spennandi framtíðarsýn, sinna heilsunni og áhugaverðum verkefnum? Komast í uppbyggilegt umhverfi og hitta skemmtilegt fólk?

Námskeiðið „Tímamót, ný hlutverk“ varð til í kjölfar þess að starfsfólk Ljóssins hafði lengi skynjað þessar vangaveltur hjá fólki sem nálgast útskrift í Ljósinu – fólk er ánægt hér og vill helst ekki sleppa tökunum af þessum góða stað. Því kviknaði sú hugmynd að halda námskeið til að styðja fólk í að taka næstu skref – ekki ósvipað og námskeiðið „Aftur til vinnu eða náms“ sem lengi hefur verið í boði.

Meðal umfjöllunarefna námskeiðsins er heilsa og heilsuefling í víðum skilningi, markmiðasetning, kynning á ýmis konar þjónustu og skemmtilegu frístundastarfi, áhugamál og ánægjulegar athafnir. Meðal annars er kynnt starf Háskóla þriðja æviskeiðs, U3A.is og vefurinn Vöruhús tækifæranna.

Helga Jóna, iðjuþjálfi í Ljósinu, stýrir Hver er ég? ásamt Hólmfríði Einarsdóttur / Mynd: Ragnar Th.

Einnig er fjallað um síðbúnar afleiðingar krabbameins, bjargráð við þeim og hvernig er hægt að halda áfram að efla sig og auka lífsgæði. Við fáum til okkar sérfræðinga á hverju sviði og lagt er upp úr virkri þátttöku, umræðum og verkefnum.

Svipaða sögu má segja um námskeiðið „Hver er ég?“ sem er sett upp sem eitt af námskeiðunum í lok endurhæfingar. Umrótarbreytingin sem fylgir greiningu og meðferð hefur óumflýjanlega áhrif á einstaklinginn en sumir upplifa sjálfsmynd sína eftir meðferð algerlega ósamrýmanlega fyrri sjálfsmynd. Iðjuvandi eftir greiningu og meðferð getur verið alls konar, lítill eða umtalsverður en flestir endurskoða líf sitt á einhvern hátt. Fyrirlestrar námskeiðsins eru því hugsaðir til að vekja þátttakendur til umhugsunar með ýmsum hætti, þeir eru spurðir spurninga og þurfa hugsanlega að leita inn á við eftir svörum.

Gert er ráð fyrir að þátttakendur séu virkir á námskeiðinu, bæði með umræðum og verkefnum sem öll snúast um að skoða vanamynstur sín, daglega rútínu, jafnvægi í daglegu lífi, gildi og sjálfsmynd. Hvernig hægt er að breyta viðhorfi til verka, velja iðju sem endurnærir og brjóta upp vanamynstur sem ekki þjóna tilgangi lengur.

Námskeiðin eru endurskoðuð reglulega út frá könnunum í lok námskeiða, samtölum við þátttakendur og þörfinni hverju sinni. Markmiðið er þó alltaf að einstaklingurinn fari frá okkur sem virkur þátttakandi í eigin lífi og sé meðvitaður um sjálfan sig sem iðjuveru, umhverfi sitt og hvað það er sem skiptir hann máli.