Það að eiga í heilbrigðu sambandi við mat og tileinka sér jákvæðar breytingar þegar kemur að fæðuvali er eitthvað sem mörgum er hugleikið í okkar samfélagi. Oft er það þó þannig að fólk ætlar sér um of, fer of geyst af stað og kemur sér upp boðum og bönnum í fæðuvali sem það heldur aðeins út í skamman tíma. Oftar en ekki endar það með því að fólk “dettur af vagninum” sem getur leitt til þess að það borðar meira af þeim mat sem var ,,bannaður” og upplifir neikvæðar tilfinningar og samviskubit í kjölfarið. Mig langar því aðeins að fara yfir nálgun sem er líklegri til að leiða til jákvæðra og ekki síst varanlegra breytinga á fæðuvali okkar.
Heilbrigt samband við mat
Lilja Guðmundsdóttir næringarfræðingur B.Sc. og íþróttanæringarfræðingur M.Sc. fjallar um viðhorf til fæðu og hvernig við getum mótað heilbrigt samband við mat.
En hvað þýðir það eiginlega að eiga í heilbrigðu sambandi við mat? Þó svo að margir séu farnir að nota þá setningu í daglegu tali þá átta ekkert endilega allir sig á hvað það í raun og veru þýðir. Ef fólk á í heilbrigðu sambandi við mat, borðar það þá t.d. alltaf næringarríkan og fjölbreyttan mat?
Það er kannski ráð að byrja á því á að útlista hvað einkennir óheilbrigt samband við mat af því þannig getum við betur áttað okkur á hvað einkennir heilbrigt samband við mat. Það sem er kannski sterkasta vísbendingin fyrir því að maður eigi í óheilbrigðu sambandi við mat er það að upplifa sektarkennd, skömm, kvíða eða streitu í tengslum við mat og félagslegar aðstæður tengdum mat.
Maður heyrir oft setningar á borð við ,,ég hef engan viljastyrk eða sjálfstjórn”, ,,ég er líklegast sykur- eða matarfíkill” eða ,,ég get sko aldrei átt neitt gott í skápunum, mér er hreinlega ekki treystandi” frá einstaklingum sem eru að glíma við þetta óheilbrigða samband við mat.
En skilgreining á heilbrigðu sambandi við mat hlýtur þá að vera nokkurs konar andstæða við þetta óheilbrigða samband. Í stuttu máli er manneskja sem á í heilbrigðu sambandi við mat sveigjanleg og afslöppuð þegar kemur að mat. Fæðuvenjur hennar fara eftir dagskrá og dagsformi, svengd og seddu og aðgengi hennar að mat hverju sinni. Hún upplifir ekki samviskubit eða skömm eftir máltíðir þrátt fyrir að borða stundum umfram þægilega seddu eða næringarsnauðari matvæli.
Fyrstu skrefin í átt að jákvæðum breytingum í fæðuvali eru því að losna undan boðum og bönnum. Einblínum frekar á þau matvæli sem við getum bætt inn í fæðuvalið okkar frekar en að leggja áherslu á að taka eitthvað út. Vinnum smám saman að því að tengjast svengdar- og sedduboðum líkamans og læra að setja saman máltíðir sem næra líkamann vel og sem okkur líður líkamlega og andlega vel af. Lykilatriðið hér er að byrja smátt og gera litlar breytingar í einu sem við getum hugsað okkur að tileinka okkur til frambúðar.