„Ég lít á æxlið sem ákveðna blessun“

Ragna Gestsdottir

Vala S. Gestsdóttir, tónlistarkona og hljóðmaður, greindist með heilaæxli og segist þakklát fyrir meinið, sem fékk hana til að endurskoða lífið og hvað hún vildi gera við seinni helming þess. Vala fann ástríðuna í tónheilun og aðstoðar í dag aðra við að finna jafnvægi í líkamanum og lífinu um leið.

„Áður hafði ég aldrei haft tíma eða ró til að pæla mikið í andlegum málefnum“ / Mynd: Birgir Ísleifur

„Ég missti heyrn á hægra eyra árið 2017 og hélt að síminn minn væri gamall, þannig að ég keypti mér nýjan síma og hann var líka bilaður. Þá áttaði ég mig á því að það var ég sem var ekki að heyra,“ segir Vala og hlær. „Ég var ófrísk á þessum tíma, þannig að ég þurfti að bíða með greiningarferlið. Árið 2018 eignaðist ég barnið og greindist með góðkynja heilaæxli sem lá að heyrnartaug. Ég var í fæðingarorlofi, fór síðan í sjúkraleyfi, í aðgerð og byrjaði svo í endurhæfingu hjá Virk sem reyndist mér ágætlega.“

Vala segir að á þessum tíma hafi henni ekki fundist hún eiga heima í Ljósinu. „Líklega var það einhver minnimáttarkennd, þar sem mér fannst ég ekki með alvöru krabbamein. En það var eitthvað sálrænt sem sat eftir hjá mér af því það eru ákveðin atriði sem fylgja því að greinast með æxli, og þá leitaði ég til Ljóssins, þar sem var vel tekið á móti mér,“ segir Vala, sem fór síðasta sumar í aðgerð til Hamborgar í Þýskalandi. „Þetta var ekki hefðbundin geislameðferð heldur hnífur, svokallaður „gamma knife“ þar sem skorið var burt það sem ekki náðist í aðgerðinni hér heima.

Ljósið hélt vel utan um mig í þessu ferli, þetta var í miðju COVID, ég var með pínulítið barn og annað þriggja ára þegar ég greindist og átti bara ótrúlega lítið inni. Ég var líka með mikinn kvíða yfir hvað tæki við.“

„Ég fann að þetta var að næra mig og byggja upp mína orku. Ég fór að stunda tónheilun af ástríðu og það kviknaði neisti hjá mér, von og framtíðarsýn,“ segir Vala.

„Ég fór að stunda tónheilun af ástríðu og það kviknaði neisti hjá mér, von og framtíðarsýn,“ segir Vala. / Mynd: Birgir Ísleifur

Æxlið var varúðarbjalla

Vala segir það hafa verið mikið áfall fyrir sig sem tónlistarkonu og hljóðmann að heyra ekki með öðru eyra. Hún fór því að hugsa um hvað hún gæti gert með tónlist og hljóð. „Þegar ég var að jafna mig í endurhæfingu þá fór ég að forvitnast um og stúdera heilun og tónheilun. Ég tók erlenda kúrsa á netinu og pantaði mér tæki og tól, svokallaðar tónkvíslir,“ segir Vala, sem byrjaði að nota tónkvíslirnar á sjálfa sig með góðum árangri.

„Ég fann að þetta var að næra mig og byggja upp mína orku. Ég fór að stunda tónheilun af ástríðu og það kviknaði neisti hjá mér, von og framtíðarsýn,“ segir Vala.

„Ég var áður búin að vera í og vinna í miklum hraða, semja tónlist meðal annars fyrir Þjóðleikhúsið, vinna í fréttum og allt í umhverfi sem einkenndist af miklum hraða. Þarna tók ég þekkingu mína í tónlist og hljóði og ég bara vissi að fyrra líf var liðin tíð. Ég tók þessu æxli sem merki um að eitthvað var ekki í lagi hjá mér, mikil streita í gangi og ég var ekki að fara vel með mig,“ segir Vala.

„Æxlið var varúðarbjalla um hvað koma skyldi ef ég myndi ekki staldra við og breyta einhverju. Ég fann að ég vildi ekki halda svona áfram. Ég var allt í einu komin með tvö lítil börn, búin að eiga við þessi veikindi, vissi hvað skipti mig máli og það varð einhver vakning hjá mér. Áður hafði ég aldrei haft tíma eða ró til að pæla mikið í andlegum málefnum. Þarna fékk ég tækifæri, æxlið stoppaði mig af. Ég fór í fæðingarorlof, endurhæfingu í Virk og svo endurhæfingu í Ljósinu. Þannig að ég fékk langan tíma og rými, sem okkur vantar flestum. Ég lít á æxlið sem ákveðna blessun fyrir mig. það stoppaði mig af, fékk mig til að endurraða, endurskoða, hvað skiptir máli fyrir mig, á hverju hef ég virkilega áhuga, hvað vil ég gera við restina, seinni kaflann af lífinu.“

Hvað er tónheilun fyrir þá sem þekkja ekkert til?

„Hljóðbylgjur hafa verið notaðar í vestrænum lækningum um árabil. Við þekkjum það til dæmis hjá sjúkraþjálfurum að hljóðbylgjur eru sendar inn í líkamann til að losa um spennu og í raun og veru er ég að gera það, nema ég nota hljóðfæri ekki rafmagnstæki. Hljóð er rafmagn, hljóðbylgjur eða tíðni. Ég nota tónkvíslir sem ég virkja sem tón eða tíðni sem tala á mismunandi hátt við líkamann. Ég nota líkamann á sama hátt og gert er í nálastungum, ég sendi hljóðbylgjurnar inn um ákveðna punkta í líkamanum,“ segir Vala.

„Þegar fólk kemur í fyrsta sinn í tónheilun fær það góða opnun og losun, hljóðbylgjur koma á líkamann og streyma hratt og vel þar til þær stoppa á einhverjum hindrunum sem þær vinna á eins og stífni og hnútum. Ég trúi því að slíkir hnútar geti orðið að einhverju verra, jafnvel heilaæxli, líkt og ég fékk.“

Vala segist oft heyra að tónheilun virki eins og góð sjúkraþjálfun. „Það kemur ákveðinn léttir og losun. Svo getur tónheilun líka farið inn á eitthvað tilfinningalegt, þetta er persónubundin meðferð. Í mínu tilfelli þá fann ég að það komst þetta góða flæði í líkama minn og líf mitt. Mér finnst eins og ég hafi verið falskt hljóðfæri og svo þegar ég tek tónkvíslirnar á líkamann þá hafi ég stillt mig. Líkaminn fer í samhljóm við tónana sem ég sendi á mig þannig að ég sendi vel valda tóna á líkamann sem hann stillir sig við,“ segir Vala.

Tónheilun er langt ferli, og kemur til mín sem starfsgrein út af allri minni sögu, menntun og heilsufarssögu. Hún er liður í öllu sem ég geri, ég er alltaf að fara lengra og lengra, þegar maður finnur ávinninginn þá vill maður bara meira.

Vala segist í dag vera komin á þann stað sem henni hafi alltaf ætlað að vera á, en hafi villst á leiðinni þangað / Mynd: Birgir Ísleifur

Aðspurð um hvort tónheilun dugi ein og sér, hvort einstaklingur þurfi ekki líka að passa upp á svefn, mataræði og annað, segir Vala svo vera.

„Tónheilun er langt ferli, og kemur til mín sem starfsgrein út af allri minni sögu, menntun og heilsufarssögu. Hún er liður í öllu sem ég geri, ég er alltaf að fara lengra og lengra, þegar maður finnur ávinninginn þá vill maður bara meira,“ segir Vala sem segist byrja í sinni vinnu alla mánudagsmorgna kl. 9. „Þá get ég ekki verið að taka Dominos á sunnudagskvöldi og horfa á sjónvarpið fram á nótt. Það gengur ekki upp þannig að tónheilun virkar mjög hvetjandi á mitt líf.

Fyrst nota ég tónheilun á mig og fer svo að vinna í því starfsumhverfi, þannig að hún virkar vel á mig, og hefur hvetjandi áhrif á að ég passi upp á mig, passi vel upp á svefninn, huga betur að mataræðinu, ég er búin að taka út sykur, hætt að drekka kaffi, og það er allt afslappaðra. Það er ekki allt sem ég geri sem er ofboðslega gott, en þetta kemur eitt af öðru í góðu flæði. Ég er komin með hreinan líkama og svo gott flæði að ég finn það sterkt ef ég set eitthvað ofan í mig sem er ekki gott fyrir mig. Ég upplifi mig hreina og vel stillta og það er svo augljóst þegar eitthvað virkar ekki fyrir mig. Ég er búin að læra að hlusta á líkamann með því að nota tónana og stilla sjálfa mig.“

Tónheilun sem meðferð

Vala segir að eins og með annað þá skili ástundun í tónheilun betri árangri en að mæta bara í eitt skipti. „Margir koma bara í eitt skipti af forvitni, en flestir koma aftur af því þeim finnst tónheilun góð. Þeir sem mæta reglulega eru að koma einu sinni í mánuði, sumir oftar. Fólk tengir tónheilunina við að líf þeirra fer að ganga betur. Við skoðum saman heildarmyndina og hvað er í gangi, þannig að þetta verður eins og sálfræðimeðferð; „Hvað ertu búinn að vera að borða, hvernig ertu að vinna, hvernig umhverfi ertu í, hvaða áhrif er það að hafa á þig andlega?“

Þegar einstaklingur kemur til Völu í tónheilun þá leggst viðkomandi á bekk í öllum fötunum, fær augnhvílu og slakar á. „Það er svo gott að ná slökun af því þá fær líkaminn vinnufrið til að heila sig sjálfur. Líkaminn er fær um að laga svo margt sjálfur, ég er bara að hjálpa og minna líkamann á,“ segir Vala, sem segist með innsæinu oft sjá hvað er að hrjá hvern og einn sem kemur til hennar.

„Með innsæinu finn ég oft hvað er í gangi hjá fólki, sumir vilja ekkert segja, aðrir segja manni allt og ef fólki finnst gott að koma þá myndast trúnaðarsamband, bara eins og gerist á hárgreiðslustofunni. Ég er ekki sálfræðingur en ég hef mikla reynslu sjálf og hef reynt margt og hef talað við svo marga.

Þetta var fallegt ferli og gott flæði og baklandið í Ljósinu gerði allt gott. Það sem nýttist mér best þar var markþjálfun og iðjuþjálfun, líka leikfimi og jóga sem mér fannst æðislegt. Ég er útskrifuð úr Ljósinu og í mínu tilviki þá var það ótrúleg gjöf að hafa Ljósið til að sjá lífið í öðru ljósi.

Við vitum flest hvað við eigum að gera en náum ekki að gera það. Við vitum að við eigum að hvíla okkur betur en þegar við ætlum að gera það og leggjum okkur, þá hvílumst við ekki af því hausinn er á fullu. Það er gott að gefa sér tíma til að koma í heilandi meðferð þar sem við fáum frið og friðhelgi til að vera í slökun og láta hlúa að okkur.

Bara ef við gefum okkur klukkutíma til þess þá náum við betur að fara í djúpslökun og þar nær líkaminn að laga svo margt. Við vitum að eftir góðan svefn þá erum við betri. Þannig að koma og vera í nærandi umhverfi og nærandi nærveru og fá svo tóna eða hljóðbylgjur í líkamann, tóna sem gefa opnun og losun, líkamlega og andlega er mjög áhrifarík meðferð sem flestir sækja í fljótlega aftur eftir fyrsta skiptið,“ segir Vala, sem var búin að vera viðskiptavinur á Shalom í yfir 20 ár þar sem hún starfar í dag.

„Ég byrjaði með herbergi heima, fór svo á stofu og er í dag búin að stofna mitt fyrirtæki. Þetta var fallegt ferli og gott flæði og baklandið í Ljósinu gerði allt gott. Það sem nýttist mér best þar var markþjálfun og iðjuþjálfun, líka leikfimi og jóga sem mér fannst æðislegt. Ég er útskrifuð úr Ljósinu og í mínu tilviki þá var það ótrúleg gjöf að hafa Ljósið til að sjá lífið í öðru ljósi.“

Vala byrjaði með herbergi heima, fór svo á stofu og er í dag búin að stofna sitt eigið fyrirtæki. / Mynd: Birgir Ísleifur

En ég veit ekki hvort ég hefði komist á þennan stað ef ég hefði ekki verið með svona góðan stuðning á bak við mig. Það er ótrúlega dýrmætt að það sé til staður og endurhæfing eins og Ljósið, sem heldur utan um fólk í svona stöðu eins og ég var í. Það er gríðarlegt áfall að vera kippt svona út úr lífinu sínu, en getur líka reynst ótrúlega falleg gjöf.“

Vala segist í dag vera komin á þann stað sem henni hafi alltaf ætlað að vera á, en hafi villst á leiðinni þangað. „Ég hef alltaf verið á þessum stað. Fyrst var ég lítil stelpa með ljóst hár sem lærði á fiðlu, síðan píanó og víólu. Tvítug  fór ég til London að læra að taka upp hljóð, ég var í hljómsveitum, fór í tónsmíðar.

Ég var alltaf að safna orkusteinum og ég held að tónheilunin hafi alltaf verið þarna, en lífið bara gleypir mann. Maður þarf tekjur og sækir starf sem er laust og svo er maður komin í ákveðna lúppu. Ég vann í 15 ár á fréttastofu og ekkert að því, en mér finnst ég hafa fengið tækifæri til að taka upp þráðinn sem ég var búin að týna.

Ég fékk kjark til þess út frá því að horfa í augu við blákaldan raunveruleikann, þá verður maður svolítið töffari og hefur engu að tapa. Ég fékk tækifæri til að losna við allan ótta. Af því það getur komið nýtt æxli í hausinn á mér á morgun, maður veit aldrei,“ segir Vala. „En ég veit ekki hvort ég hefði komist á þennan stað ef ég hefði ekki verið með svona góðan stuðning á bak við mig. Það er ótrúlega dýrmætt að það sé til staður og endurhæfing eins og Ljósið, sem heldur utan um fólk í svona stöðu eins og ég var í. Það er gríðarlegt áfall að vera kippt svona út úr lífinu sínu, en getur líka reynst ótrúlega falleg gjöf.“