Skemmdir eftir geislameðferð
Jóna byrjaði í lyfjameðferð í átta skipti á tveggja vikna fresti. „Kröftug lyfjameðferð þar sem var dælt í mig lyfjum. Síðan fór ég í brjóstnám og loks í geislameðferð,“ segir Jóna, en ferlið stóð yfir frá ágúst í fyrra til febrúarloka í ár. „Mánuði eftir geislameðferðina kom í ljós að ég hafði fengið skemmdir á brjóstsvæðinu eftir geislana. Ég er búin að glíma við það síðan og endurhæfingin hefur dregist á langinn út af því og ég hef ekki getað sinnt henni eins og ég hefði viljað. Ég var komin á fullt og hreyfigetan að verða góð, síðan gerðist þetta og þá fór allt í baklás aftur,“ segir Jóna.
„Þetta eru skemmdir í fituvef sem mynda stóra kúlu. Ég á erfitt með að hreyfa hendina, er með mikinn þrýsting í brjóstkassanum og verki. Ég hef ekki fengið nein góð svör frá læknum, en þetta virðist ekki algengt. Þeir segja að eins og staðan sé núna þá geti þeir ekkert gert í þessu og þeir geta ekki einu sinni útskýrt þetta nákvæmlega fyrir mér.“
Voru þessar síðbúnu afleiðingar annað áfall?
„Já þær voru það. Ég var í ferlinu öllu með baráttuhausinn, síðan var þetta búið og ég farin að sjá endalokin fyrir mér, en svo breyttist það. Það er líka mikil bómul utan um mann í öllu ferlinu, svo þegar meðferð er að ljúka þá er maður komin hálf úr bómullinni og erfitt að fara inn í hana aftur,“ segir Jóna og vísar þar til góðs utanumhalds af hálfu allra í meðferðarferlinu. „Síðan var erfitt að fá einhvern aftur til að halda utan um þetta, ekkert vitað hvað á að gera og ekki neitt eftirlit. Mér var sagt að þetta gæti lagast, en nú eru komnir 7-8 mánuðir og þetta er ekki að lagast neitt. Þetta er ekki að versna, heldur bara búið að vera eins. Ég er búin að berjast við að fá að fara í skoðun, ég hef ekki mætt í neinar skoðanir eða annað, og það er enginn að tékka á mér. Óvissan er það versta við þetta, það er ekkert plan eða nein dagsetning núna eins og var í meðferðinni,“ segir Jóna.
Hún segist ekki hafa hitt eða talað við neinn sem er í sömu stöðu og hún. „Ég setti inn færslu á síðu um brjóstakrabbamein á Facebook til að athuga hvort einhver væri með reynslusögur og fékk ekki mikið af svörum. Það getur vel verið að þetta sé algengt, en ef svo er þá er það eitthvað sem ég hef ekki fengið nein svör um,“ segir Jóna. „Ég er ekki bjartsýn á að fá einhver svör, en ætla að biðja um að eitthvað plan verði sett upp og eftirlit fyrir mig,“ segir Jóna, sem átti fund með lækni viku eftir að viðtalið var tekið, sem var síðan frestað vegna veikinda læknisins og nýr tími ekki boðaður.
Jóna fékk þó loksins tíma og er komin með einhver svör og plan. „Það verður ekkert hægt að gera fyrr en í lok febrúar ári eftir geisla og ég verð í eftirliti þangað til og þá verður ákveðið hvað hægt verður að gera í þessum óheppilegu aukaverkunum.“