Iðjuþjálfar Ljóssins á Evrópuráðstefnu
Iðjuþjálfar Ljóssins sóttu Evrópuþing stéttarinnar í haust og deila hér með okkur upplifun sinni og því sem er nýtt á nálinni í heimi iðjunnar.
Iðjuþjálfar Ljóssins á fyrsta degi ráðstefnunnar
Evrópuráðstefna iðjuþjálfa var fyrirhuguð í í Prag í lok september 2020. Það var mikill hugur í okkur iðjuþjálfunum Ljóssins, og sendum við inn ágrip til að komast að með fyrirlestur. Fyrirlesturinn var samþykktur, en heimsfaraldurinn setti skorður og var ráðstefnunni frestað til september 2021. Í byrjun árs 2021 var ljóst að Covid myndi enn setja okkur skorður, og fór ráðstefnan því fram rafrænt í gegnum Zoom.
Þó við kæmumst ekki saman til Prag ákváðum við að upplifa ráðstefnuna saman og ekki síst samgleðjast með þeim fyrirlesurum sem tóku þátt á vegum Ljóssins. Það varð því úr að við héldum til á Hótel Hamri í Borgarnesi ráðstefnudagana og grínuðumst með að við værum á ráðstefnu í „Brag“ í staðinn fyrir Prag. Á ráðstefnunni var mögulegt að velja á milli fimm rása af fyrirlestrum á hverjum tíma, ásamt því að boðið var upp á rafrænar kynningar á veggspjöldum.
Þema ráðstefnunnar var þrautseigja, innri styrkur og seigla. Var sjónum beint að því hvernig hægt er að hjálpa fólki að byggja upp þrautseigju og innri styrk í aðstæðum lífsins, ásamt því hvernig hægt er að hafa áhrif á umhverfi og þjóðfélög hvað þetta varðar.
Þema ráðstefnunnar var þrautseigja, innri styrkur og seigla. Var sjónum beint að því hvernig hægt er að hjálpa fólki að byggja upp þrautseigju og innri styrk í aðstæðum lífsins, ásamt því hvernig hægt er að hafa áhrif á umhverfi og þjóðfélög hvað þetta varðar.
Áhersla okkar með fyrirlestri frá Ljósinu var að varpa ljósi á hversu mikið krabbameinsgreining hefur áhrif á líf einstaklinga sem greinast, sem og aðstandendur þeirra. Reynslan sýnir að þessi erfiða lífsreynsla krefst þrautseigju vegna óvissu og oft ótta vegna breyttra aðstæðna og er í raun langtímaverkefni. Við vildum með fyrirlestrinum sýna hvernig Ljósið byggir upp þrautseigju og innri styrk hjá okkar skjólstæðingum og hve mikilvægt það sé að horfa heildrænt á einstaklinginn.
Erna Magnúsdóttir iðjuþjálfi og forstöðukona Ljóssins, ásamt iðjuþjálfunum Helgu Jónu Sigurðardóttur og Guðrúnu Friðriksdóttur fluttu fyrirlestur Ljóssins á myndbandsformi, var því búið að vinna allt efni fyrirfram. Að loknum flutningi sátu þær fyrir svörum þar sem aðrir áhugasamir þátttakendur gátu spurt um allt er varðar starfsemi Ljóssins. Við þökkum öllum þeim sem komu að gerð myndbandsins.
Áhugaverð umræða skapaðist á ráðstefnunni um hvaða samfélagslegu ábyrgð við sem iðjuþjálfar berum í að veita þjónustu sem ýtir undir þrautsegju skjólstæðinga okkar. Þarfagreining á samfélagslegri ábyrgð þjónustu fyrir minnihlutahópa t.d. eins og krabbameinsgreinda. Hvernig samfella í þjónustu á milli kerfa getur verið mikilvæg fyrir bataferli fólks. Við erum stöðugt að meta þjónustuna og skapa ferla, gæðahandbók og útskriftarferli sem horfir til þessara þátta, en þetta er vinna sem þarf að vera í sífelldri endurskoðun og þróun. Josh Cameron sem var aðalfyrirlesari á ráðstefnunni fjallaði um þetta í tengslum við rannsóknina sína Building resilience for wellness and recovery.
Það var lærdómsríkt að vera á rafrænni ráðstefnu og máta eigin reynslu á Covid tímum við reynslu iðjuþjálfa annarra landa. Gaman að sjá að þar stöndum við okkur vel í þróuninni og náum að þjónusta stærri og fjölbreyttari hóp en áður.
Fallegt í Borgarfirði. Iðjuþjálfar Ljóssins nutu sín í „Brag“ í staðinn fyrir Prag.
Það var lærdómsríkt að vera á rafrænni ráðstefnu og máta eigin reynslu á Covid tímum við reynslu iðjuþjálfa annarra landa. Gaman að sjá að þar stöndum við okkur vel í þróuninni og náum að þjónusta stærri og fjölbreyttari hóp en áður.
Við lærðum margt nýtt og rifjuðum einnig upp hluti sem hafa ef til vill ekki verið áberandi í starfi okkar en mikilvægt að rifja upp. Skemmtilegar umræður um tískubylgjur innan fagsins tengt íhlutun, og hvernig það er oft eins og fatatískan sem gengur í hringi.
Meðal þeirra fyrirlestra sem stóð upp úr var fyrirlestur um líf-iðjufræði nálgunina (bio-occupational approach) þar sem lögð er áhersla á að að nota báðar linsur gleraugnanna í starfinu sem iðjuþjálfi frá upphafi. Greiningin hefur alltaf einhver áhrif á íhlutunina og sérstaða iðjuþjálfunar er að skoða einstaklinginn heildrænt þannig að líffræði kemur iðjuþjálfun alltaf við. Það er sérstaða okkar fags að horfa á allt umhverfi fólks, bæði innra og ytra.
Þá komu fram áhugaverðir fyrirlestrar um t.d. heart focused breathing – technique til að vinna með slökun gegn kvíða og streitu. Einnig voru áhugaverðir fyrirlestrar um hvernig má nota markvissa skynörvun á hendur og fætur en krabbameinsgreindir glíma oft við minnkað skyn í fingrum og tám auk þess að finna fyrir náladofa í útlimum.
Í það heila var ráðstefnan mjög lærdómsrík og mun stuðla að frekari grósku í starfi iðjuþjálfa Ljóssins.