„Ég var ófrísk og komin 16 vikur á leið þegar ég fann æxli í brjóstinu, en 16 vikur er akkúrat tíminn sem hægt er að gefa krabbameinsmeðferð á meðgöngu. Konur þurfa oft að fresta meðferð eða framkvæma fósturlát ef þær greinast fyrir 16 vikna meðgöngu. Ég fékk síðan greiningu, þríneikvætt brjóstakrabbamein í vinstra brjósti, gengin 17 vikur og byrjaði viku seinna á kröfugri lyfjameðferð á tveggja vikna fresti frá júlí fram í október. Ég er ekki með Bracca-genið eða neitt slíkt, enginn í fjölskyldunni fengið brjóstakrabbamein svo ég viti, þannig að þetta er svona tilfallandi,“ segir Eva Berglind. „Það hefur samt verið mikið af krabbameini í kringum mig. Rúmu ári áður en ég greindist fór ég með tengdamóður minni í gegnum þetta ferli vegna leghálskrabbameins og fylgdi henni í meðferðir og læknatíma. Þannig að mér fannst skrítið að vera í sömu sporum sem sjúklingur nýbúin að vera í þeim sem aðstandandi.“
Eva Berglind er ljósmóðir og var búin að starfa sem slík í ár á meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítalans þegar hún greindist. Hún var einnig nýbyrjuð í sumarfríi, sem breyttist í veikindaleyfi og hefur hún verið frá vinnu síðan í júlí 2020. Eva Berglind byrjaði nýlega í fæðingarorlofi að loknu veikindaleyfi og sjúkradagpeningum frá stéttarfélagi. „Ég fæ sex mánuði í fæðingarorlof, ég rétt missti af lengingunni. Við maðurinn minn fáum tíu mánuði saman, sitt hvora fjóra og svo tvo mánuði sem ég tek. En ég fæ tíu daga framlengingu af því dóttirin var á vökudeild og með sondu. Það er engin framlenging þó móðirin sé veik, ekki ef veikindin eru ekki meðgöngutengd.“