„Sidekick þýðir hjálparhella, þannig að þetta er hvetjandi hjálparhella,“ segir Kolbrún Halla Guðjónsdóttir iðjuþjálfi. „Til að þróa úrræðið frekar þá sjáum við í Ljósinu um að fá þátttakendur í rannsóknina.“
G. Haukur Guðmundsson sjúkraþjálfari hjá Sidekick Health starfaði áður hjá Ljósinu, og þannig er tengingin komin við Ljósið, en Sidekick Health og Ljósið bera sameiginlega ábyrgð á verkefninu. Sidekick Health sérhæfir sig í stafrænni heilbrigðisþjónustu og er markmiðið að nota nýjustu tækni á sviði atferlisfræði og leikjavæðingar til að breyta heilbrigðiskerfinu og bæta meðferð. Úrræðið er hannað af læknum og sérfræðingum Sidekick Health.
Grunnskilyrði fyrir að taka þátt er að eiga snjallsíma. Rannsóknin hófst í ágúst 2021 og þegar viðtalið var tekið í byrjun október voru tæplega 40 einstaklingar ýmist búnir með fjórar vikurnar eða mismunandi langt komnir með þær, og aldurshópurinn mjög breiður.