Við erum komin lengra en við þorðum að vona í upphafi
Unnur María Þorvarðardóttir
Landsbyggðardeild Ljóssins er tveggja ára þróunarverkefni, með það að markmiði að mæta endurhæfingarþörfum einstaklinga með krabbamein, búsettum á landsbyggðinni. Þar er verið að nýta sérþekkingu og úrræði sem Ljósið hefur þróað undanfarin 16 ár. En hvernig hefur gengið með þessa nýju þjónustu og hver er framtíðin? Unnur María, deildarstjóri Landsbyggðardeildar, deilir hér með okkur nokkrum þönkum um deildina.
Unnur María, deildarstjóri Landsbyggðardeildar Ljóssins, á Höfn í Hornafirði þegar sjónvarpsstöðin N4 ræddi við þjónustuþega sem þar búa og fjallaði um deildina og hlutverk hennar / Mynd: Ljósið
Það hefur lengi verið draumur okkar í Ljósinu að endurhæfingin á Langholtsveginum gæti náð lengra og að við gætum haldið betur utan um þá einstaklinga sem greinast með krabbamein og búsettir eru á landsbyggðinni. Um miðbik ársins 2020 voru hjólin komin á fullt og tók Landsbyggðardeild Ljóssins formlega til starfa í nóvember 2020.
Strax í upphafi varð okkur ljóst að eftirspurnin væri mikil og það er óhætt að segja að deilin hafi vaxið hratt en undanfarna 12 mánuði hafa 114 einstaklingar víðs vegar af um landið sótt um að nýta þjónustuna. Aðsókn hefur farið fram úr væntingum og hefur Ljósið lagt til auka fjármagn til að fjölga stöðugildum starfsmanna við deildina til að anna eftirspurn eftir þjónustu.
Verklag og þjónusta deildarinnar byggir á þeim grunni sem Ljósið hefur verið að veita með góðum árangri en útfært með lausnarmiðuðum útfærslum sem henta í fjarþjónustu. Endurhæfingaferlið er alltaf einstaklingsmiðað og útfært í samvinnu við skjólstæðinginn, þar sem leitast er við að viðhalda eða bæta líkamlega, andlega og félagslega líðan og virkni óháð batahorfum. Einstaklingar sem hafa greinst með krabbamein geta nýtt sér þjónustuna sér að kostnaðarlausu og án tilvísunar frá öðrum heilbrigðisstofnunum.
Þjónustuferli Landsbyggðardeildar / Mynd: Ljósið
Í samvinnu við skjólstæðinginn eru endurhæfingarþarfir metnar og hvaða aðgerðaráætlun hentar miðað við aðstæður hvers og eins. Leitast er við að finna úrræði í nærumhverfi sem geta stutt við endurhæfinguna þegar kostur er, og/eða útskrift í úrræði í nærumhverfi þegar það á við. Þverfaglega samvinna og eftirfylgni þar til endurhæfingarþörfum hefur verið mætt eða stöðugleika náð. Markmiðið er alltaf að hvetja til sjálfstæðis og sjálfbærni í endurhæfingunni sem undanfari að útskriftarferli skjólstæðinga úr þjónustu.
Gyða Rán sjúkraþjálfari tekur á móti skráningu í þoltíma í gegnum Zoom / Mynd: Ljósið
Í september byrjaði nýtt námskeið í Ljósinu ætlað þeim sem tilheyra Landsbyggðardeild Ljóssins. Námskeiðið fer fram alfarið í gegnum fjarfundabúnað og er fræðslan sérstaklega miðuð að þörfum þeirra sem búa á landsbyggðunum.
Þann 1. nóvember fórum við af stað með fjögurra vikna fjar-þjálfunar námskeið þar sem Erla og Gyða sjúkraþjálfarar bjóða upp hópþjálfun í gegnum Zoom tvisvar sinnum í viku. Fræðsla, hópefli, æfingar með eigin líkamsþyngd og spjall.
Að geta fengið fræðslu og „hitta“ aðra í svipuðum aðstæðum í gegnum tölvuskjáinn er eitthvað sem við lærðum að nýta okkur í samkomutakmörkunum vegna Covid. Samkvæmt þjónustukönnunn Ljóssins síðastliðið vor kom fram að fjarnámskeið og aðrar fjarlausnir í þjónustu voru metnar hátt í ánægju, sérstaklega meðal þeirra sem eru búsettir á landsbyggðinni.
Skjólstæðingar okkar á landsbyggðinni þurfa oft að leggja á sig aukna fjarvera frá heimili vegna fjarlægðar frá sérhæfðri læknisþjónustu og því lítum við á það sem mikilvægan kost að geta nýtt sér endurhæfingarúrræði í nærumhverfi einstaklingsins, að færa fræðsluna heim í stofu er viðbót sem við erum stolt að veita.
Námskeiðin byggir á grunni þeirra námskeiða sem hafa verið starfrækt í Ljósinu á Langholtsvegi undanfarin ár með góðum árangri. Skjólstæðingar okkar þyrstir í upplýsingar og þekkingu sem gagnast þeim í veikindaferlinu. Að skilja betur viðbrögð sín og kynnast bjargráðum sem geta gagnast, dregur úr streitu, gremju og vanlíðan. Jafningjastuðningur hefur alltaf verið órjúfanlegur partur af þjónustu Ljóssins og er ekki síður mikilvægur fyrir þá sem búsetu sinnar vegna hafa ef til vill takmarkaðari tækifæri að ræða við fólk í sambærilegum aðstæðum.
Skjólstæðingar okkar á landsbyggðinni þurfa oft að leggja á sig aukna fjarvera frá heimili vegna fjarlægðar frá sérhæfðri læknisþjónustu og því lítum við á það sem mikilvægan kost að geta nýtt sér endurhæfingarúrræði í nærumhverfi einstaklingsins, að færa fræðsluna heim í stofu er viðbót sem við erum stolt að veita.
Í haust fjallaði sjónvarpsstöðin N4 um verkefni deildarinnar og ræddi við skjólstæðinga Landsbyggðardeildarinnar um upplifun sína og reynslu af þjónustunni. Við hvetjum áhugasama til að horfa á þáttinn til að fá frekari innsýn í starfið og við hvetjum alla til að horfa.
Það sem síðastliðnir 12 mánuðir hafa kennt okkur er að endurhæfing er fjölbreytt ferli sem hægt er að útfæra og aðlaga eftir aðstæðum á ótal vegu. Aukið samstarf og samfella í þjónustu eykur lífsgæði og ýtir undir árangur. Við erum að stíga inn í nýja tíma þar sem tæknin er að hjálpa okkur að komast lengra en við þorðum að vona. Þó svo að tæki og tól komi aldrei í staðinn fyrir mannleg tengsl, getum við nýtt tæknina til að auka framleiðni í þjónustu, bæta skilvirkni, fækka hindrunum og auka aðgengi. Er það ekki bara svolítið spennandi?