„Ég kynntist Ljósinu í gegnum OsteoStrong þar sem ég var að vinna áður, fannst Ljósið mjög spennandi og sótti um starf,“ segir Mark sem byrjaði að vinna í Ljósinu í júlí í sumar. Hann er 27 ára Dani og flutti til landsins í maí í fyrra ásamt íslenskri konu sinni. „Við kynntumst í Danmörku þar sem konan mín var að læra hjúkrunarfræði, bjuggum saman þar í þrjú ár og svo vildi hún flytja heim. Þannig að ég sagðist koma með og prófa að búa á Íslandi,“ segir Mark á nær lýtalausri íslensku.
Stefán er 29 ára, fæddur og uppalinn á Ísafirði og flutti hann tvítugur til Reykjavíkur. 2018 hóf hann nám í háskólanum og útskrifaðist síðustu áramót. „Frændi minn sendi mér upplýsingar um að það væri hægt að sækja um vinnu í Ljósinu, en ég hafði kynnst því í náminu, þar sem Haukur sjúkraþjálfari sem starfaði áður í Ljósinu kenndi mér styrktarþjálfun,“ segir Stefán.
„Tveir félagar mínir töpuðu baráttunni við krabbamein árið 2019, þeir voru báðir ungir þó þeir hafi verið tíu árum eldri en ég og fjölskyldumenn. Þetta var erfitt ferli að fylgjast með hjá þeim, þeir höfðu báðir sótt sér þjónustu í Ljósið og fengið stuðning hér. Þannig að ég átti þá tengingu við Ljósið og langaði mikið að sækja um vinnu hér, af því ég hafði heyrt að hér væri bæði þjálfun og styrktarþjálfun sem væri hægt að vinna við.
Mér fannst þetta spennandi vinna og áhugavert hvernig íþróttir hafa áhrif á krabbamein, meðferð við krabbameini og hvað við getum gert til að berjast gegn meininu. Mig langaði að vera hluti af því að aðstoða fólk í gegnum þetta ferli,“ segir Stefán sem hóf störf í Ljósinu á sama tíma og Mark, í júlí í sumar. Hann bætir við að á þeim tíma sem félagar hans tveir háðu krabbameinsbaráttu sína hafi landsbyggðadeild Ljóssins ekki verið byrjuð og því hafi þeir þurft að sækja þjónustuna til Reykjavíkur.