„Við hvetjum ungu strákana til að koma í Ljósið“

Ragna Gestsdóttir

Íþróttafræðingarnir Mark Bruun Kristensen og Stefán Diego eru báðir ungir að árum og hófu báðir störf í Ljósinu í sumar. Þeir segjast ekki geta verið á betri vinnustað og segja skjólstæðinga ánægða með þá hreyfingu og endurhæfingu sem boðið er upp á. Báðir hvetja þeir yngri kynslóðina og sérstaklega karlmenn til að koma og sjá hvað Ljósið getur boðið þeim.

Mark og Stefán glaðbeittir í íþróttasalnum / Mynd: Ragnar Th

„Ég kynntist Ljósinu í gegnum OsteoStrong þar sem ég var að vinna áður, fannst Ljósið mjög spennandi og sótti um starf,“ segir Mark sem byrjaði að vinna í Ljósinu í júlí í sumar. Hann er 27 ára Dani og flutti til landsins í maí í fyrra ásamt íslenskri konu sinni. „Við kynntumst í Danmörku þar sem konan mín var að læra hjúkrunarfræði, bjuggum saman þar í þrjú ár og svo vildi hún flytja heim. Þannig að ég sagðist koma með og prófa að búa á Íslandi,“ segir Mark á nær lýtalausri íslensku.

Stefán er 29 ára, fæddur og uppalinn á Ísafirði og flutti hann tvítugur til Reykjavíkur. 2018 hóf hann nám í háskólanum og útskrifaðist síðustu áramót. „Frændi minn sendi mér upplýsingar um að það væri hægt að sækja um vinnu í Ljósinu, en ég hafði kynnst því í náminu, þar sem Haukur sjúkraþjálfari sem starfaði áður í Ljósinu kenndi mér styrktarþjálfun,“ segir Stefán.

„Tveir félagar mínir töpuðu baráttunni við krabbamein árið 2019, þeir voru báðir ungir þó þeir hafi verið tíu árum eldri en ég og fjölskyldumenn. Þetta var erfitt ferli að fylgjast með hjá þeim, þeir höfðu báðir sótt sér þjónustu í Ljósið og fengið stuðning hér. Þannig að ég átti þá tengingu við Ljósið og langaði mikið að sækja um vinnu hér, af því ég hafði heyrt að hér væri bæði þjálfun og styrktarþjálfun sem væri hægt að vinna við.

Mér fannst þetta spennandi vinna og áhugavert hvernig íþróttir hafa áhrif á krabbamein, meðferð við krabbameini og hvað við getum gert til að berjast gegn meininu. Mig langaði að vera hluti af því að aðstoða fólk í gegnum þetta ferli,“ segir Stefán sem hóf störf í Ljósinu á sama tíma og Mark, í júlí í sumar. Hann bætir við að á þeim tíma sem félagar hans tveir háðu krabbameinsbaráttu sína hafi landsbyggðadeild Ljóssins ekki verið byrjuð og því hafi þeir þurft að sækja þjónustuna til Reykjavíkur.

Af hverju skiptir endurhæfing máli fyrir krabbameinsgreinda?

„Þegar þú ferð í lyfjameðferð eða geisla þá brotnar líkaminn mikið niður og þú verður að gera eitthvað til að vinna á móti því. Ef þú ætlar bara að liggja heima þá er það verra. Þú verður að byggja þig upp fyrir lyfjameðferðina því þá fer líkaminn ekki eins langt niður eftir meðferðina. Og eins þarftu að byggja þig upp eftir meðferðina til að líkaminn byggi sig hraðar upp,“ svarar Mark.

„Við erum bæði að vinna með einstaklingsprógrömm og bjóðum einnig upp á hópatíma, bæði þoltíma og þol og styrk sem er meira fyrir einstaklinga sem eru að útskrifast. Einstaklingsprógrömm miða að stöðu viðkomandi eins og hún er í dag og eru annaðhvort ætluð til að viðhalda formi viðkomandi eða byggja það upp eftir meðferð,“ svarar Stefán. 

Mynd: Ljósið

Aðspurðir um hvort þeir hafi lært í náminu sérstaklega að starfa með krabbameinsgreindum svara þeir neitandi. „Okkur var kennt að hreyfing og æfingar eru góðar fyrir alla,“ segir Mark. „Sama hjá mér, nema Haukur fjallaði aðeins um krabbamein í kennslu í styrktarþjálfuninni. Síðan er kennd sjúkdómafræði út frá öllum sjúkdómum. Hreyfing er mikilvæg þegar kemur að öllum sjúkdómum, einnig andlegum veikindum og lífsstílssjúkdómum,“ segir Stefán.

„Einstaklingur sem kemur í hreyfingu í Ljósið byrjar á að fara í viðtal til sjúkraþjálfara, þar sem form hans er metið á komudegi. Síðan er hann bókaður í tækjakennslu og kemur þá annað hvort til íþróttafræðings eða heldur áfram hjá sjúkraþjálfara, það fer bara eftir hvort það er fleira að hrjá hann en krabbameinið. Þegar viðkomandi hefur fylgt prógramminu fyrir, í og eftir meðferð, þá fær hann stöðumat og þá er það sjúkraþjálfari eða íþróttafræðingur sem fylgir því eftir. Þá er kannað hver staðan er, er formið eins og það var í upphafi, eða betra eða verra. Það getur verið mismunandi eftir því hvernig lyfjameðferðin eða geislarnir hafa farið í viðkomandi. Og síðan er metið hvort hann haldi áfram hjá okkur eða útskrifist.“

„Fyrsta viðtalið hjá sjúkraþjálfara er sérhæft, þar er farið ítarlega í sögu viðkomandi og sjúkrasöguna. Að öðru leyti er vinna okkar svipuð og sjúkraþjálfara og við pössum upp á að okkar vinna haldist í hendur við sjúkraþjálfunina,“ segir Stefán.

Hreyfing hefur jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Og líka að vinna með sjúkraþjálfurum og íþróttafræðingum. Fólk er með þungann yfir sér og allt grátt, síðan kemur það í Ljósið og fær hlýjar móttökur, fólk hér er jákvætt og upplífgandi og ég hef aldrei séð neinn labba út héðan með fýlusvip. Það eru allir rosalega þakklátir.

Er eitthvað sem kom ykkur á óvart við að byrja að vinna í Ljósinu?

„Það kom mér á óvart að margir eru mjög langt niðri og klára orkuna bara með því að ganga í fimm mínútur á bretti. En það er þá líka gaman að hjálpa því fólki að byggja sig upp og það gefur mér mjög mikið að sjá muninn á þeim á eftir,“ segir Mark.

„Það kom mér virkilega á óvart hversu hratt formið og krafturinn fór niður hjá fólki þegar meðferð byrjaði og fylgjast með ferlinu þegar fólk er að byggja sig upp og hvað formið er fljótt að koma til baka þegar viljinn er til staðar. Fólk sem byggir sig upp fyrir meðferð hrynur ekki jafnhratt niður kúrfuna og er fljótara að koma tilbaka eftir meðferð en þeir sem byggja sig ekki upp fyrir hana,“ segir Stefán og bætir við: „Hreyfing hefur jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Og líka að vinna með sjúkraþjálfurum og íþróttafræðingum. Fólk er með þungann yfir sér og allt grátt, síðan kemur það í Ljósið og fær hlýjar móttökur, fólk hér er jákvætt og upplífgandi og ég hef aldrei séð neinn labba út héðan með fýlusvip. Það eru allir rosalega þakklátir.“

Okkur þætti vænt um að fá að vinna með þeim yngri sem eru að takast á við krabbamein og vera til stuðnings fyrir þau. Þau geta fengið að vera þau sjálf hér og fengið að stunda sína hreyfingu.

Þeir játa aðspurðir að flestir séu á bömmer þegar þeir geta lítið í hreyfingu og eru að bera form sitt saman við hvað þeir gátu gert áður en þeir greindust. „Þá reynum við bara að vera jákvæðir og við bendum fólki á að formið komi aftur, fólk sé að byggja sig upp. Hreyfing dregur líka úr aukaverkunum, fólk er oft með ógleði, þreytt og orkulaust, og hreyfingin tekur það í burtu að hluta,“ segir Mark. „Hreyfing gefur líkamanum meira þol til að takast á við þessa þreytu og byggir upp öðruvísi orku gagnvart þessari hugarþreytu sem kemur. Líkaminn hefur þannig meiri kraft til að takast á við þreytuna sem fylgir geislameðferð,“ segir Stefán.

Hvað er erfiðast við starf ykkar?

„Ég er jákvæður og svolítið opinn alltaf og þá tengist ég fólki, og ég lít á að það fylgi starfinu. Og stundum kynnist maður fólki sem er þegar með tapaða baráttu og á jafnvel ekki mikið eftir. Slíkt vegur þungt á manni. En við erum að vinna með frábæru fólki sem veitir manni stuðning og hjálpar manni að dreifa þessari þyngd sem getur fylgt starfinu, hún hvílir aldrei á einhverjum einum.  Þetta er fullkominn vinnustaður til að takast á við slíkt,“ segir Stefán.

Aðspurðir um hvernig líkamsræktin er í Ljósinu samanborið við líkamsræktarstöðvar segja þeir að sömu tæki séu í boði og á öðrum stöðvum. „Það eina sem er öðruvísi hér er „vibe-ið“ í salnum, þetta er ekki svona yfirþyrmandi stemning eins og myndast oft í stærri sölum. Fólk kemur í gott spjall, hreyfir sig og fær stuðning og útskýringar. Það fylgist þjálfari eða sjúkraþjálfari með allan tímann og það þarf enginn að hafa neinar áhyggjur af því að vera að gera eitthvað rangt. Það er alltaf hægt að fá leiðbeiningar og ef einhverjum finnst prógrammið ekki vera að virka þá er alltaf hægt að koma strax og fá annað prógramm sem hentar betur. Tónlistin er líka öðruvísi og hér geta allir fengið sitt óskalag,“ segir Stefán.

Það er mest að gera í æfingasalnum á morgnana og fram að hádegi að sögn Mark og Stefáns, og segja þeir meira pláss í salnum eftir hádegi. „Hjá okkur er meirihlutinn konur, það er erfitt að fá karlana inn,“ segir Mark. „Sérstaklega þessa yngri,“ bætir Stefán við. „Þeir þurfa ekki að vera feimnir að mæta, við erum með sértíma fyrir yngra fólk á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Þar geta þau verið með jafningum sínum, fólki á svipuðum aldri. Okkur þætti vænt um að fá að vinna með þeim yngri sem eru að takast á við krabbamein og vera til stuðnings fyrir þau. Þau geta fengið að vera þau sjálf hér og fengið að stunda sína hreyfingu.“

„Við hvetjum ungu strákana til að koma í Ljósið, dyrnar eru opnar og það þarf enginn að vera feiminn að koma og fá sér að minnsta kosti einn kaffibolla. Ég hef ekki heyrt um neinn sem líkar ekki við Ljósið og margir karlmenn sem var ýtt hér inn fyrst af konum sínum eru enn að nýta sér þjónustuna hér. Ekki vera feiminn, þegar þú ert kominn inn þá finnur þú strax að Ljósið er öðruvísi en þú heldur,“ segir Stefán. „Fólk á svolítið erfitt með að leita sér hjálpar og sérstaklega karlmenn,“ segir Mark.

Aðspurðir um hvort ástæðan fyrir því að yngra fólk leiti síður í Ljósið sé vegna þess að það sé með stærra bakland en þeir sem eldri eru svara þeir játandi.

„Já ég held að það sé svoleiðis. Og mörg fara líka í þá hreyfingu sem þau voru í fyrir greiningu og meðferð. Við erum að búa til stuðningshóp fyrir unga stráka og vonum að hann muni ganga vel,“ segir Mark. Og aðspurðir um hvort þeir vildu breyta einhverju í hreyfingunni í Ljósinu þá er það að fá inn hóp sem væri aðeins fyrir stráka, þar sem tekið væri vel á því.

„Það var svona hópur hér hjá Hauki. Síðan fækkaði hjá yngri strákum og hópurinn flosnaði upp og hefur ekki verið í um það bil ár. Strákarnir gætu fengið sérhæfðari lyftingaþjálfun, við erum menntaðir íþróttafræðingar sem höfum mikinn áhuga á lyftingum og þekkjum lyftingar vel, bæði kraftlyftingar, body-building og ólympískar lyftingar og það væri margt sem við gætum kennt þessum strákum og ekki bara þeim, heldur hverjum sem vill,“ segir Stefán.

„Við hvetjum ungu strákana til að koma í Ljósið, dyrnar eru opnar og það þarf enginn að vera feiminn að koma og fá sér að minnsta kosti einn kaffibolla. Ég hef ekki heyrt um neinn sem líkar ekki við Ljósið og margir karlmenn sem var ýtt hér inn fyrst af konum sínum eru enn að nýta sér þjónustuna hér. Ekki vera feiminn, þegar þú ert kominn inn þá finnur þú strax að Ljósið er öðruvísi en þú heldur,“ segir Stefán. „Fólk á svolítið erfitt með að leita sér hjálpar og sérstaklega karlmenn,“ segir Mark.

Báðir fylgjast vel með nýjum rannsóknum og lesa sér til um þær. „Við reynum að aðlaga þær í okkar daglega starf. Í raun er engin hreyfing sem krabbameinsgreindir ættu ekki að geta gert, það eina sem gæti stoppað viðkomandi er fyrri sjúkrasaga hans, líkamleg meiðsl eða eitthvað slíkt. Það sem stoppar einstaklinga tímabundið er þolið og vöðvarýrnun. Til þess erum við hér til að sporna gegn því og koma þeim yfir kúrfuna,“ segir Stefán. „Við erum mjög ánægðir í þessu starfi og ég á tengingu hingað. Við gætum ekki fundið betri vinnustað og yndislegra samstarfsfólk.“