Hremmingar hjólahópsins
Keppnin gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig hjá hópnum. Hafsteinn veiktist og var sendur heim þegar komið var á Egilsstaði. „Hann fór í COVID-bólusetningu tveimur dögum fyrir keppnina og það var pínu skellur fyrir okkur að hann veiktist, hann var einn af okkar bestu hjólurum. Cube-liðið skildi okkur síðan eftir á Akureyri sem var pínu vonbrigði. Þannig að við sáum þegar keppnin var hálfnuð að við myndum ekki vinna hana. Og þegar þú ert með fullan bíl af mönnum sem eru ekki vanir að tapa þá getur það verið áskorun fyrir menn að pína sig áfram í keppni sem þeir vita að þeir munu ekki vinna,“ segir Auðunn.
„Við vorum allavega að ná öðru sætinu. Við fórum því að einbeita okkur að því að vera sýnilegir, sáum að við vorum að vekja athygli og fólk að fylgjast með útsendingum okkar og þríeykið okkar í Ljósinu voru duglegar að peppa okkur áfram. Markmiðið var því að halda uppi stemningunni í liðinu og við viljum meina að við höfum unnið Cyclothon af því við vorum liðið sem allir héldu með. Liðið sem vann keppnina fékk mun minni athygli en við. Við fundum að það héldu allir með okkur, bæði af því við vorum að keppa fyrir Ljósið og líka hvernig við nálguðumst keppnina, við ákváðum bara að við myndum hafa gaman og gera þetta eins vel og við gátum.“
Auðunn segir að það hafi hvatt hópinn enn frekar áfram að heyra það frá Ljósinu að ungur karlmaður hefði komið og skráð sig í Ljósið. „Þá sáum við að þrátt fyrir að við værum að tapa keppninni þá vorum við greinilega að vinna af því markmiðið var að fá unga karlmenn inn í Ljósið og það greinilega tókst. Þessar fréttir léttu brúnina hjá mörgum í liðinu og við vildum því klára verkefnið almennilega. Við fórum í þessa vegferð með ákveðið markmið, að vinna sem tókst ekki alveg, en við unnum samt af því við unnum athyglina. Það tókst ekki með því að vinna, heldur með því að vera einlægir, skemmtilegir og koma vel fram. Það eru stundum læti í svona hjólreiðakeppnum og menn að stinga hvern annan í bakið, en við náðum alltaf að vera góðu gaurarnir og það hataði okkur enginn. Cube-strákarnir segja sjálfir að þeir séu sennilega hötuðustu gaurarnir í keppninni, þeir unnu ekki vinsældakeppnina, en við unnum hana, við vorum vinsælasta stúlkan í keppninni,“ segir Auðunn og hlær. „Við vöktum athygli af því við vorum með þessar hetjur í liðinu, alveg súper góða hjólara, síðan voru þrír svona ekki eins góðir með, eins og við Steini sem vorum aðallega í að keyra bílinn,“ segir Auðunn og bætir við að hann hafi aldrei hjólað eins lítið í keppninni og þetta árið, enda markmið hans frekar að vera liðsstjóri.