„Við vorum vinsælasta stúlkan í keppninni“

Ragna Gestsdóttir

Ragna Gestsdóttir

Auðunn Gunnar Eiríksson fann ástríðuna í hjólreiðum á fertugsaldri. Auðunn ákvað að setja saman hjólahóp af fremstu hjólreiðamönnum landsins og kepptu þeir fyrir Ljósið í Síminn Cyclothon sumarið 2021. Markmiðið var að vinna keppnina, en þó markmiðið hafi ekki náðst segir Auðunn liðið engu að síður hafa unnið, bara með öðrum hætti.

Auðunn Gunnar Eiríksson

Auðunn Gunnar Eiríksson vel merktur Ljósinu og góðum stuðningsaðilum verkefnisins / Mynd: Þórdís Reynisdóttir

„Ég er Flateyringur, sveitastrákur að vestan sem upplifði „midlife-crisis“ á fertugsaldri eins og margir gera, skildi eins og margir gera á þessum aldri, uppgötvaði hjólreiðar á þessu tímabili líka og fór „all inn“ í hjólreiðar eftir skilnaðinn. Og var að hjóla og keppa með góðum árangri aðallega fyrir mig,“ segir Auðunn og hlær beðinn um að lýsa því hver hann er.

Auðunn byrjaði í kór Fjallabræðra árið 2017. Kórinn keppti í hjólreiðakeppninni WOW Cyclothon ári áður og ákvað að taka þátt aftur 2017. „Þeir drógu mig með, og ég hjólaði með þeim hringinn, sem var skemmtileg upplifun, enda hvað getur verið leiðinlegt við að fara tíu gaurar saman í rútu í tvo daga. Það getur ekki verið leiðinlegt fyrir utan vonda lykt,“ segir Auðunn og bætir við að þarna hafi hjólreiðaáhuginn verið orðinn meitlaður í hausinn á honum og keppti hann aftur í WOW Cyclothon ári síðar. 2019 tók hann síðan þátt í þriðja sinn. „Hjólahópurinn samanstóð aðallega af gaurum úr Breiðablik, við fengum tvo mjög góða hjólara með okkur og enduðum í öðru sæti í karlaflokki. Við höfðum áður sagt að við værum sigurvegarar karlakóra, en þarna vorum við í 2. sæti og þá kviknaði áhugi hjá mér að ef ég færi aftur í keppnina þá myndi ég fara til að vinna.“

Auðunn Gunnar Eiríksson

Auðunn í bol skreyttum skemmtilegri teikningu Hugleiks Dagssonar / Mynd: Þórdís Reynisdóttir

„Seldi mér Ljósið strax“

Auðunn hóf samtal við félaga sína í Breiðablik um að setja saman súperlið hjólara og hafði þá María Sæmundsdóttir þjálfari í Breiðablik samband við hann og sagðist vera með verkefni. „Solla hjá Ljósinu vildi finna flöt á að keppa fyrir Ljósið, þannig að ég setti mig í samband við hana. Ég hafði heyrt af Ljósinu áður, þó ég vissi ekki hversu mikið starf færi hér fram. Ég hafði ekki kynnst því neitt sem aðstandandi, en eftir að við Solla byrjuðum að tala saman, þá greindist frænka mín með krabbamein og fékk þjónustu hjá Ljósinu,“ segir Auðunn.

„Solla seldi mér Ljósið strax og ég segi alltaf að það er gaman að koma í hús Ljóssins. Þetta er svolítið eins og félagsheimilið í Stuðmannamyndinni, pínulítið hús en svo kemur þú inn og þá er það risastórt og ef þú hugsar líka um starfsemina þá er hún risastór. Mér fannst það mjög áhugavert,“ segir Auðunn.

Hugmyndin var að Auðunn myndi setja saman hjólahóp sem myndi keppa árið 2020, en það ár féll keppnin niður vegna kórónuveirufaraldursins. Auðunn var þó tilbúinn að skoða málið ári síðar og setti sig í samband við Sollu haustið 2020. „Félagi minn Þorsteinn Hallgrímsson vildi hjóla með og við vorum búnir að tala við góðan hóp af hjólurum. Það var ákveðið að keyra þetta í gang og þá þurfti ég bara að búa til lið. Við vorum þarna tveir félagar, svona miðaldra karlmenn, bumbukallar, ekkert bestu hjólararnir og myndum ekki gera mikið bara tveir. Við vildum fara með því markmiði að vinna og hvernig gerir maður það?“ segir Auðunn. „Jú maður talar við bestu hjólarana, þannig að ég hafði samband við Ingvar Ómarsson sem er eini íslenski atvinnumaðurinn í hjólreiðum og hann var meira en til að vera með. Maður á auðvelt með að selja fólki að koma í lið þegar er göfugt markmið á bak við það.“

„Solla seldi mér Ljósið strax og ég segi alltaf að það er gaman að koma í hús Ljóssins. Þetta er svolítið eins og félagsheimilið í Stuðmannamyndinni, pínulítið hús en svo kemur þú inn og þá er það risastórt og ef þú hugsar líka um starfsemina þá er hún risastór. Mér fannst það mjög áhugavert,“ segir Auðunn.

Markmiðið með að taka þátt í keppninni var að auka vitund ungra karlmanna á Ljósinu og að þeir myndu leita til Ljóssins. „Þannig að við vorum með göfugt markmið og svo vorum við að fara að vinna þessa keppni og Ingvar er keppnismaður. Næstur var Hafsteinn Geirsson, sem er goðsögn í hjólreiðasögunni og var þá
Íslandsmeistari í götuhjólreiðum, fertugur að aldri. Sem hvatti okkur miðaldra karlana, en Ingvar er þó með betri bakgrunn. Hákon Hrafn Sigurðsson yfirþjálfari hjá Breiðablik er þjálfarinn okkar Steina og við vorum með gott aðgengi að honum. Hákon er margfaldur Íslandsmeistari í þríþraut og tímatöku í hjólreiðum. Honum fannst átakið skemmtilegt og að taka þátt í keppni til að vinna hana, en hann hafði þá ekki keppt í Cyclothon í einhver ár. Síðan talaði ég við Kristinn Jónsson, sem er 22 ára og einn efnilegasti hjólari landsins,“ segir Auðunn.

„Þarna vorum við komnir saman, fjórir mjög góðir hjólarar, sem höfðu verið Íslandsmeistarar og tveir miðaldra karlmenn,“ segir Auðunn og hlær. „Jón Ingi Sveinbjörnsson, félagi minn í Breiðablik, sem var 130 kg þegar hann byrjaði að hjóla bættist í hópinn. Hann er orðinn þrusuhjólari og þarf varla að taka fram að hann er ekki 130 kg í dag. Það þurfti líka að finna menn sem manni finnst skemmtilegir, af því maður þurfti að vera með þeim í alveg átta daga.“

Eftir ábendingu frá Hafsteini talaði Auðunn við Pál Elís. „Ég þekkti hann ekkert þá, en Páll er goðsögn í hjólaheiminum, hann er um fimmtugt, búinn að vinna helling í hjólreiðum og keppa frá því ég var ungur pjakkur og vissi ekkert hvað hjólreiðar eru. Páll er einn af þeim sem á flest KOM, sem Strava heldur utan um og það þykir mjög gott,“ segir Auðunn. „Páll var til og þannig vorum við líka komnir með dreifðan aldurshóp, frá 22 ára yfir fimmtugt. Þegar fréttir af hópnum kvissuðust síðan út í hjólreiðaheiminum sem er nú kannski ekki stór þá ráku menn upp stór augu. Við vorum strax taldir sigurstranglegt lið og það var markmiðið hjá okkur að vinna keppnina.“

Auðunn segir það kosta talsverða fjármuni að keppa í keppni líkt og Cyclothon og því var næsta skref að fara í að fá búninga fyrir hópinn, bíl og annað sem þarf. Margir hafi verið til í að styrkja hópinn. „Það var ekkert mál að fá fólk í lið með okkur. Við fengum til dæmis Sportval og þeirra birgja New Wave og Askja lét okkur hafa bíl. Novator og Örninn voru sjálfkjörnir sem styrktaraðilar flestra atvinnuhjólaranna í hópnum. Ég held að ég hafi verið sá eini sem var ekki á Trek-hjóli,“ segir Auðunn.

Þegar kom að keppnisdegi frétti hópurinn að Cube hjólreiðaverslun væri búin að ráða tvo atvinnumenn frá Þýskalandi til að keppa í sínum hópi. „Það var því komin mikil samkeppni og þarna komið sterkt lið sem keppinautur. Markmið okkar var alltaf að vinna og líka að kynna Ljósið og fá unga karlmenn til að uppgötva allt það góða starf sem er unnið þar.“

Auðunn Gunnar Eiríksson

Lið Ljóssins var í öðru sæti í Síminn Cyclothon 2021 / Mynd: Ljósið

„Annað en þú heldur“

Auðunn vann með Sollu, Heiðu og Margréti Örnu, sem allar starfa hjá Ljósinu og voru þær meðal annars að aðstoða hjólreiðahópinn við að finna styrktaraðila. „Við vorum með „elítu- team“ í þeim þremur og síðan kom hugmyndin um „Annað en þú heldur.“ Svavar Burgundy kvikmyndatökumaður var þá líka kominn inn í verkefnið og er að gera heimildarmynd um allt ferlið. Þannig þróaðist verkefnið bæði af umræðunni við okkur og aðra sem koma í Ljósið um að Ljósið er annað en þú heldur. Hugleikur Dagsson kom inn í verkefnið og hannaði skemmtilega dónalegar teikningar,“ segir Auðunn, sem segir að þegar þarna var komið hafi þátttaka í keppninni verið orðin að öðru og meira.

Auðunn segir hópinn hafa gert sig mjög sýnilega á samfélagsmiðlum, bæði fyrir keppnina og á meðan þeir hjóluðu hringinn. Að þeirra mati hafi Síminn ekki verið duglegur í markaðsstarfinu, enda færri lið að keppa en fyrri ár. „Ég held að ég hafi kynnt keppnina meira en Síminn gerði, með því að fara í útvarpsviðtöl og fleira til að kynna átak okkar fyrir Ljósið. Við hefðum viljað hafa fleiri lið og fá þannig meiri athygli, en við ákváðum bara að búa til okkar athygli. Áður hefur verið bein útsending frá keppninni, sem var ekki í ár,“ segir Auðunn.

„Ég tók að mér að flytja fréttir úr bílnum og segja frá keppninni. Þú getur ímyndað þér hvað það er gáfulegt þegar maður er búinn að vaka í tvo sólarhringa og segja frá hjólreiðakeppni,“ segir Auðunn og hlær. „En þetta vakti heljarinnar athygli og við fengum mikla athygli út á þessar beinu útsendingar.“

Ljósið í Síminn Cyclothon 2021

Fákurinn frái sem flutti liðsmenn hringinn í kringum Ísland / Mynd: Ljósið

Auðunn segir að það hafi hvatt hópinn enn frekar áfram að heyra það frá Ljósinu að ungur karlmaður hefði komið og skráð sig í Ljósið. „Þá sáum við að þrátt fyrir að við værum að tapa keppninni þá vorum við greinilega að vinna af því markmiðið var að fá unga karlmenn inn í Ljósið og það greinilega tókst. Þessar fréttir léttu brúnina hjá mörgum í liðinu og við vildum því klára verkefnið almennilega

Hremmingar hjólahópsins

Keppnin gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig hjá hópnum. Hafsteinn veiktist og var sendur heim þegar komið var á Egilsstaði. „Hann fór í COVID-bólusetningu tveimur dögum fyrir keppnina og það var pínu skellur fyrir okkur að hann veiktist, hann var einn af okkar bestu hjólurum. Cube-liðið skildi okkur síðan eftir á Akureyri sem var pínu vonbrigði. Þannig að við sáum þegar keppnin var hálfnuð að við myndum ekki vinna hana. Og þegar þú ert með fullan bíl af mönnum sem eru ekki vanir að tapa þá getur það verið áskorun fyrir menn að pína sig áfram í keppni sem þeir vita að þeir munu ekki vinna,“ segir Auðunn.

„Við vorum allavega að ná öðru sætinu. Við fórum því að einbeita okkur að því að vera sýnilegir, sáum að við vorum að vekja athygli og fólk að fylgjast með útsendingum okkar og þríeykið okkar í Ljósinu voru duglegar að peppa okkur áfram. Markmiðið var því að halda uppi stemningunni í liðinu og við viljum meina að við höfum unnið Cyclothon af því við vorum liðið sem allir héldu með. Liðið sem vann keppnina fékk mun minni athygli en við. Við fundum að það héldu allir með okkur, bæði af því við vorum að keppa fyrir Ljósið og líka hvernig við nálguðumst keppnina, við ákváðum bara að við myndum hafa gaman og gera þetta eins vel og við gátum.“

Auðunn segir að það hafi hvatt hópinn enn frekar áfram að heyra það frá Ljósinu að ungur karlmaður hefði komið og skráð sig í Ljósið. „Þá sáum við að þrátt fyrir að við værum að tapa keppninni þá vorum við greinilega að vinna af því markmiðið var að fá unga karlmenn inn í Ljósið og það greinilega tókst. Þessar fréttir léttu brúnina hjá mörgum í liðinu og við vildum því klára verkefnið almennilega. Við fórum í þessa vegferð með ákveðið markmið, að vinna sem tókst ekki alveg, en við unnum samt af því við unnum athyglina. Það tókst ekki með því að vinna, heldur með því að vera einlægir, skemmtilegir og koma vel fram. Það eru stundum læti í svona hjólreiðakeppnum og menn að stinga hvern annan í bakið, en við náðum alltaf að vera góðu gaurarnir og það hataði okkur enginn. Cube-strákarnir segja sjálfir að þeir séu sennilega hötuðustu gaurarnir í keppninni, þeir unnu ekki vinsældakeppnina, en við unnum hana, við vorum vinsælasta stúlkan í keppninni,“ segir Auðunn og hlær. „Við vöktum athygli af því við vorum með þessar hetjur í liðinu, alveg súper góða hjólara, síðan voru þrír svona ekki eins góðir með, eins og við Steini sem vorum aðallega í að keyra bílinn,“ segir Auðunn og bætir við að hann hafi aldrei hjólað eins lítið í keppninni og þetta árið, enda markmið hans frekar að vera liðsstjóri.

Að lokinni keppni

Auðunn segir þátttöku í Cyclothon eitthvað sem hópurinn þurfi ekki að gera aftur, enda þurfi menn ekki að gera sama hlutinn oft. „Við fórum í gegnum þessa keppni og náðum þeim markmiðum sem við ætluðum að ná fyrir Ljósið, sem var grunnurinn að því að við tókum þátt. Að gera Ljósið sýnilegt fyrir karlmenn af því stór hluti þeirra sem stunda hjólreiðar eru karlmenn á miðjum aldri. Og að fá þær fréttir að ungur maður hafi mætt og skráð sig var ákveðinn sigur fyrir liðið,“ segir Auðunn.

„Hjólahópurinn var vel samsettur og ótrúlega skemmtilegur og það var svo góð stemning í hópnum alveg frá því við settum hann saman, sem hefur haldist alveg til dagsins í dag. Hópurinn náði að gera keppnina skemmtilega þrátt fyrir ýmsa örðugleika, eins og að missa einn besta hjólarann út vegna veikinda og að hafa tapað keppninni eftir hálfa keppni sem er ekki gott fyrir egóið hjá bestu hjólurum landsins,“ segir Auðunn, sem segir einnig frábært að fá Hugleik með í verkefnið. „Það vakti athygli á okkur út fyrir hjólaheiminn og gerði verkefnið skemmtilegra út á við. Verkefnið er búið en samt ekki alveg búið. Við Solla hittumst annað slagið og erum að finna eitthvað annað verkefni. Við vorum með gott stuðningsmannateymi með okkur og það var gaman að vinna með þessum ofurkonum í Ljósinu, við fengum allt, þær bara redduðu því alveg sama hvað það var. Liðsmennirnir þurftu bara að hjóla og ekki að hafa áhyggjur af neinu öðru, það voru aldrei nein vandamál, þær bara redduðu því sem ég bað um.“

Og aðspurður um hvort og þá hvað Auðunn ætlar að gera næst í hjólreiðum tengt Ljósinu svarar hann: „Ég er búinn að vera með þá flugu í hausnum að hjóla til Ísafjarðar í einum rykk frá Reykjavík og kannski geri ég það næsta sumar sem styrktarhjólreiðar fyrir Ljósið. Ég var að spá í þessu í fyrra og þá voru 30 manns sem höfðu áhuga á að fara með þannig að ég efast um að ég þurfi að hjóla þetta einn. Þetta er það sem mig langar að gera og ákveðin áskorun fyrir mig og til styrktar Ljósinu,“ segir Auðunn, og segir að með þátttöku liðsins í Cyclothon hafi þeir ekki verið að safna fyrir Ljósið, heldur að vekja athygli á ákveðnu málefni.

„Cyclothon safnaði þá fyrir Landvernd, en við heyrðum frá okkar fólki að það var frekar til í að styrkja Ljósið en Landvernd. Markmið okkar hvað Cyclothon varðar er að kannski verður næst eða þarnæst safnað fyrir Ljósið, við lifum alveg í þeirri von, sem væri um leið sigur fyrir okkur. Kannski verður það kvennalið næst sem hjólar fyrir Ljósið í Cyclothon, og það er hægt að gera ýmislegt annað sem er ekki tengt hjólreiðum. Við Solla erum alltaf að kasta einhverjum hugmyndum á milli okkar og það er margt mögulegt sama hvort það er hjólreiðakeppni eða samhjól.“

Auðunn er því enn tengdur Ljósinu þó keppninni í Cyclothon sé lokið. „Ég er alltaf rosalega feginn að fá að koma í Ljósið. Maður finnur hvað er góð orka í húsinu og hvað allt starfsfólkið er helgað starfinu og hvað öllum líður vel og eru glaðir með það sem er verið að gera hér. Það er svo miklu meira en þú heldur sem er í boði hérna og það kom okkur öllum í liðinu á óvart. Enginn okkar var með persónulega reynslu af Ljósinu en allir voru hrifnir af því hvað Ljósið hefur upp á að bjóða. Ég vona að ég fái að vera áfram í Ljósinu án þess að greinast með krabbamein. Það er svo gaman að fá að vera lítil fluga hér á vegg annað slagið og sjá starfið sem er í gangi hérna.“