„Það eru einhverjar lukkudísir sem dansa í kringum mig“

Ragna Gestsdóttir

Hrafnhildur Hrafnkelsdóttir var innan við fermingu þegar hún var fyrst skorin upp vegna góðkynja hnúts í brjósti. Og í gegnum árin hafa fleiri góðkynja hnútar verið teknir. Breyting varð fyrir tveimur árum þegar Hrafnhildur fann ber í öðru brjóstinu sem reyndist vera krabbamein. Biðin og kvíðinn eftir aðgerð var verstur að hennar sögn, en í vor ákvað Hrafnhildur að kveðja kvíðann og lítur framtíðina björtum augum. 

Hrafnhildur Hrafnkelsdóttir

„Ég er bjartsýn, jákvæð og þakklát og ekki pláss fyrir annað.“ segir Hrafnhildur Hrafnkelsdóttir / Myndir: Þórdís Reynisdóttir

 „Ég fann eins og litla baun framan við geirvörtuna. Ég fékk annað slagið ber í brjóstið í gegnum tíðina og ég var innan við fermingu þegar ég var skorin fyrst,“ segir Hrafnhildur og rifjar upp að hún hafi ekki vitað hvað þetta var, en þar sem þetta væru brjóstin þá væri það eitthvað dónalegt. Telur Hrafnhildur það mega rekja til þess að móðir hennar sýndi henni ekki mikla nánd sem barni og hlutirnir voru sjaldnast ræddir. Segir Hrafnhildur það líklega mega rekja til uppeldis og aðstæðna móður hennar. „Ég var því ekkert að segja mömmu frá þessu, en á endanum var þetta orðið svo stórt að ég varð að gera það. Mamma fór með mig til læknis, ég var skorin og góðkynja æxli tekið. Þetta var alltaf góðkynja, ætli hafi ekki verið tekin 6-7 úr mér. Þessi baun sem ég fann stækkaði þó og ég hringdi upp á krabbameinsdeild. Mér var sagt að ég yrði að vera með tilvísun frá lækni, þannig að ég fór til hans,“ segir Hrafnhildur. Segist hún hafa verið mjög lasin vorið 2019 og fengið lungnabólgu, en Hrafnhildur er með sjálfsofnæmissjúkdóminn Lupus eða Rauða úlfa og tekur lyf við honum.

„Læknirinn hélt að þetta væri bara af því ég hefði verið lasin og á pensilíni. Ég fór til hans í mars og í október mætti ég í bókaðan tíma til að taka hnút undir hendinni og segi við lækninn að berið sé enn í brjóstinu og hann segist taka það í leiðinni. Síðan hringir hann í mig og segir mér að það séu einhverjar frumubreytingar í berinu.  Hann segir að annar læknir muni hringja í mig og ég gekk um gólf og beið eftir því símtali. Þegar krabbameinslæknirinn hringdi sagði hann að ég fengi tíma í nóvember og ég yrði skorin í janúar, þar sem þetta væri örugglega staðbundið. Ekki veit ég hvernig hann þóttist vita það, hann hafði aldrei skoðað mig og mér fannst nú full langt að bíða með aðgerð frá því í mars. Ég hefði bara viljað drífa mig, skera, búið, punktur!“

Ég er búin að nýta þjónustuna hér mjög mikið. Það er farið að tala um útskrift við mig og ég bara nei, Ljósið er örugglega einn af fáum stöðum sem maður vill ekki útskrifast

Eignaðist son í páskafríi

Hrafnhildur er alin upp í miðbænum af einstæðri móður og á einn bróður sem er sjö árum yngri. „Pabbi var nú einhvers staðar að gera aðra hluti og afi minn og amma voru látin. Á tímabili bjuggum við í einu herbergi fyrir ofan þar sem skemmtistaðurinn Kiki er á Laugavegi, með sameiginlegt klósett, ekkert eldhús bara eina plötu í herberginu. Mamma vann mjög mikið og ég var að passa bróður minn. Þarna má kannski finna ástæðuna fyrir kvíðanum sem ég hef glímt mismikið við í gegnum tíðina. Það var lögð mjög mikil ábyrgð á mig snemma og ég var mjög fljótt fullorðin að axla þessa miklu ábyrgð,“ segir Hrafnhildur beðin um að lýsa uppvexti sínum.

Hrafnhildur gekk í Miðbæjarskólann, Austurbæjarskóla og Vörðuskóla og gekk henni alla tíð vel í skólanum. „Ég átti kærasta og varð ófrísk 16 ára, mamma var nú ekkert voða hrifin og sagði að ég skyldi nú ekki gera ráð fyrir að hún myndi passa, en hún passaði þó meðan ég var í skólanum. Ég átti soninn á laugardegi í páskafríinu og mætti svo bara í skólann á mánudeginum eftir að páskafríinu lauk. Ég tók mér aldrei frí allan veturinn. Ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í og mánuði eftir að hann fæddist varð ég 17 ára. Ég byrjaði í sambúð með barnsföður mínum sem dugði nú ekki lengi og við hættum saman. Þegar ég hugsa til baka þá var ég algjör jaxl, alltaf í vinnu og þetta gekk mjög vel. Sonur minn er, og hefur alltaf verið, alveg yndislegur og við eigum gott samband. Ég var í fínni vinnu sem ritari hjá Hagvangi og var búin að kaupa mér verkamannaíbúð í Breiðholti. Lífið bara blasti við okkur mæðginunum,“ segir Hrafnhildur og segir að ólíkt því sem tíðkast í dag þá voru einstæðar mæður á þessum tíma taldar annars flokks. 

Þegar sonurinn var sex ára kynntist Hrafnhildur nýjum manni, sem hún átti eftir að giftast og verja næstu áratugum með. Þau hjónin ráku um árabil  skóverslanir á Laugavegi, í Kringlunni og Smáralind með góðum árangri. Hún varð loks ófrísk aftur 35 ára gömul. „Sonur minn var þá 18 ára. Ég eignaðist dóttur og það var lengra milli systkinanna, en mín og sonar míns. Ég varð svo amma 39 ára. Sonur minn og hans kona eignuðust sitt fyrsta barn, son og það eru því fjögur ár á milli ömmusonarins og dóttur minnar,.“ segir Hrafnhildur. 

„Ég og fyrrverandi maðurinn minn giftum okkur en skildum þegar dóttir okkar var á fermingaraldri. Ég var búin að hugsa þetta í einhvern tíma og var á því að dóttirin yrði svo miður sín ef við myndum skilja, en ég var ekki hamingjusöm. Hvað er maður alltaf að hugsa um aðra og hvað þeim finnst ?“ spyr Hrafnhildur.

Eftir skilnaðinn bjuggu mæðgurnar tvær saman.„Ég ætlaði ekki að kynnast öðrum manni, en það gerðist og ég kynntist einum sem var að flytja til London. Hann var duglegur að hringja og skemmtilegur og endaði með að ég heimsótti hann og við byrjuðum í fjarbúð. Þá fór að togast á í mér að vera hjá honum og vera með móral yfir að vera ekki heima hjá dótturinni sem þá var orðin fullorðin og byrjuð í Verzló. Svo var ég hér heima og þá með móral yfir að vera ekki hjá honum. Maður á bara að hætta þessu, að vera með móral yfir öllu endalaust.“

Frá vinstri: Hrafnhildur fagnar litrófi ástarinnar, Hrafnhildur ásamt börnum sínum; Daða og Ingileif, við gosstöðvar fyrr á árinu, og fjórir ættliðir saman komnir: Ingileif, Rökkvi, Hrafnhildur og Hrafnkell

Ekki með nóg krabbamein fyrir Ljósið

Beðin um að lýsa nánar meðferðinni eftir greiningu segir Hrafnhildur tímabilið hafa verið erfitt. Ekki nóg með að kórónuveirufaraldur hafi skollið á þá var einnig yfirvofandi verkfall hjá hjúkrunarfræðingum meðan hún beið eftir aðgerð.

„Það mátti enginn fara með mér og ég var einhvern veginn alltaf ein upp á spítala. Ég lokaði mig eiginlega inni heima, ég ætlaði ekki að veikjast eða smitast af COVID og missa af aðgerðinni. Þetta var rosalega erfiður tími. Svo kom mars og ég var skorin, sem gekk vel og ég fann varla fyrir neinu, nema ég er enn að glíma við eymsli í hálsinum eftir slönguna sem var sett í mig. Í júní fór ég í geislameðferð. Þetta gekk vel en þegar ég hugsa til baka þá hafa lyfin og geislarnir áhrif, maður er alltaf þreyttur og ólíkur sjálfum sér. Móðir mín lést úr krabbameini og ég fór með henni í lyfjagjöf, hún greindist innan við sextugt með brjóstakrabbamein og fór í brjóstnám og  lyfjagjöf og var hress eftir það. Ég man eftir að ég keyrði hana í Neskirkju þá var Ljósið að byrja þar, ég fór þó aldrei með henni inn. Mörgum árum seinna tók meinið sig upp aftur og  hún lést.“

„Ég hugsaði að ég væri örugglega ekki með nógu mikið krabbamein til að fara þangað. Ég var búin að undirbúa mig sjálf, ég hef verið með sítt hár alla ævi, en lét klippa vel af því til að undirbúa mig undir ef ég myndi missa allt háríð. Maður er í svona skynsemistali við sjálfan sig“

Eftir að Hrafnhildur greindist með krabbamein sagði tengdadóttir hennar henni frá Ljósinu. „Ég hugsaði að ég væri örugglega ekki með nógu mikið krabbamein til að fara þangað. Ég var búin að undirbúa mig sjálf, ég hef verið með sítt hár alla ævi, en lét klippa vel af því til að undirbúa mig undir ef ég myndi missa allt háríð. Maður er í svona skynsemistali við sjálfan sig,“ segir Hrafnhildur, sem ákvað þó að fara á kynningarfund í Ljósinu í byrjun árs.

„Það breytti lífi mínu að koma hingað og vera hér, ég prjóna mikið sem er mín íhugun og hlusta á sögur og hér er prjónahópur. Ég fór á námskeið fyrir nýgreindar konur sem var góður og þéttur hópur, svo kom ný bylgja í faraldrinum og þá var lokað. Ég fékk undanþágu um haustið að koma aftur inn sem nýgreind. Svo kom önnur bylgja. Þetta var svona að ég var komin á rosa gott ról en datt aftur til baka. Á þessum tíma fannst mér eins og ég væri kýld niður,“ segir Hrafnhildur, sem glímdi við fleira en krabbameinið.

Hrafnhildur segir Ljósið vera einn af fáum stöðum sem maður vill ekki útskrifast / Mynd: Þórdís Reynisdóttir

„Mamma hvaða ár er?“

Í október í fyrra átti Hrafnhildur tíma hjá tannlækni til að fá tannréttingaskinnur. Á mánudegi hringdi hann og sagði þær tilbúnar. „Og ég segist ekkert vita hvað hann er að tala um. Hann endurtók sig og sagðist síðan hringja aftur. Næst hringdi konan hans, sem er með honum á stofunni, og spyr hvort sé ekki allt í lagi og ég svara játandi og skil enn ekkert í þessu með skinnurnar. Þessu næst hringdu þau í dóttur mína og sögðu henni að hringja á sjúkrabíl, það væri eitthvað að mér. Dóttir mín hringdi í mig og spyr hvort sé ekki allt í lagi og ég játa því, búin að klæða mig og hafa mig til,“ segir Hrafnhildur. Þessu næst kom sjúkrabíll, maður og kona, sem komu inn og ræddu við Hrafnhildi og dóttir hennar var mætt heim til hennar líka. 

„Þau koma hér inn heima og fara að ræða við mig. Og spyrja mig hvaða ár sé. Og Ingileif, dóttir mín, horfir á mig: „Já mamma hvaða ár er?“ Og ég svara 2006, ég vissi ekki hvaða ár var. Ég man ekkert af þessu, það sem ég er að segja núna er allt eitthvað sem þau sögðu mér eftir á. Ég var sett á börur og farið með mig upp á spítala. Ég vil alltaf líta vel út og var ánægð með að ég væri búin að hafa mig til,“ segir Hrafnhildur og hlær. Á spítalanum var hún send í rannsóknir og heilaskanna. „Ég talaði við marga í síma þennan morgun og man ekkert eftir því, meðal annars sambýlismann minn sem var úti á landi og ákvað hann að koma keyrandi í bæinn. Þetta er kallað tímabundið minnisleysi segja læknarnir, mér fannst þetta mjög óhugnanlegt og hugsaði hvað ef ég hefði farið út að keyra. Læknarnir héldu að þetta hefði komið vegna langvarandi streitu, einhvers konar kvíðaröskun, þeir kalla þetta TGA,“ segir Hrafnhildur.

„Heimilislæknirinn minn var nú ekki á því að þetta væri skýringin, hann var á því að ég hefði fengið „mini-stroke“ um morguninn eða vægt heilablóðfall. Ég sagði honum að ég hefði verið send í heilaskanna og ekki merki um heilablóðfall, en hann sagði að það gæti horfið á klukkustund. Ég skrifa allt niður í dagbók, læknatíma, upplýsingar um lyf og fleira og í hana hafði ég skrifað að ég hringdi í Krabbameinsfélagið strax klukkan átta þegar opnaði. Ég mundi ekkert eftir því,“ segir Hrafnhildur. Læknirinn skrifaði upp á hjartamagnyl fyrir Hrafnhildi sem hún hefur verið á síðan, auk lyfja við lupus og krabbameininu.

„Ég er kvíðin yfir að þetta gerist aftur, hvað ef þetta gerist og ég er ein með barnabarnið. Ég er búin að vera að labba, fara í jóga, íhugun, hreyfa mig og teygja, borða hollt, reyki ekki, drekk ekki, samt lendi ég í þessu. Læknirinn skrifaði líka upp á kvíðalyf fyrir mig sem gefur manni þessi efni sem vantar í heilann og ég var tilbúin að prófa það. Þetta atvik var nú ekki til að bæta á kvíðann,“ segir Hrafnhildur.

Kvíðinn kvaddur

Hrafnhildur segist hafa tekið ákvörðun síðastliðið vor. „Ég hugsaði að nú myndi ég að kveðja kvíðann og sleppa tökum og trúa og treysta að allt verði í lagi. Síðan hef ég verið svo glöð, ánægð og dugleg, er hætt að brjóta mig niður, sem er gírinn sem maður fer í í kvíðanum að brjóta sjálfan sig niður sem ég átti ekki skilið. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að vera glöð og jákvæð. Ég ætla ekki að vera að stjórna öðru fólki heldur,“ segir Hrafnhildur.

„Ég varð langamma núna í febrúar og það eru nú ekki allir sem lifa það. Það er svo margt sem ég er þakklát fyrir. Ég er búin að lifa skemmtilegu og erfiðu lífi, leiðinlegu á köflum. Ég á æðislega krakka sem ég elska út af lífinu og barnabörn og gæti ekki verið glaðari. Ég ætla að hætta að hafa áhyggjur af öðrum. Dóttir mín er greind með flogaveiki og ég hafði alltaf áhyggjur af henni og ef hún svaraði ekki símanum þá var ég lögð af stað yfir til hennar að athuga með hana. Ég var alltaf með áhyggjur af öllum, og ef það var ekkert að hafa áhyggjur af, þá bjó ég bara til áhyggjur. Ég ætla að hætta að breyta fólki, ég get bara breytt mér,“ segir Hrafnhildur. 

Frá vinstri efri línu: 5 ættliðir saman komnir, Hrafhildur ásamt Þóru tengdadóttur sinni, fjölskyldan öll saman komin, Hrafnhildur 35 ára með Ingileif dóttur sinni, Hrafnhildur í undirbúningi Ljósablaðsins og að lokum með 16 ára með Daða son sinn / Myndir: Aðsendar

„Það að mæta í Ljósið hefur gefið mér svo mikla gleði. Allir svo yndislegir og vel tekið á móti mér. Ég kem oft hingað að borða enda maturinn æðislegur, ég fer í jóga og í líkamsræktarsalinn, mæti í handavinnu. Ég kem í snyrtingu og nudd til sjúkraþjálfara. Ég er búin að nýta þjónustuna hér mjög mikið. Það er farið að tala um útskrift við mig og ég bara nei, Ljósið er örugglega einn af fáum stöðum sem maður vill ekki útskrifast,“ segir Hrafnhildur, sem segist vel geta hugsað sér að koma og vinna í Ljósinu eftir útskrift þar sem hún er ekki í vinnu. 

Hefurðu áhyggjur af að meinið komi tilbaka?

„Ég ætla ekki að dvelja við að hugsa um það, ég bara hugsa ekki um það. Ég ákvað bara í vor að sleppa þessum kvíða og vera ekki að hafa áhyggjur af einhverju sem verður kannski aldrei. Ég er ekki að dvelja við að ég fái krabbamein aftur, ég bara vona ekki það er eina sem ég get gert. Ég haga mínu lífi, lifi heilbrigðu lífi og ég held líka að það sé rosa mikið atriði að vera jákvæður og þakklátur. Í dag þakka ég fyrir á hverjum morgni og hverju kvöldi og set restina í hendur almættisins hvar sem það nú er. Ég ætla ekki að dvelja við að hugsa um það, ég bara hugsa ekki um það. 

Það eru einhverjar lukkudísir sem dansa í kringum mig, það gengur allt upp, ég er bjartsýn, jákvæð og þakklát og ekki pláss fyrir annað. Þetta er líka svo mikið frelsi að sleppa kvíðanum og fólk segir líka að það sjáist á mér.“