„Ég fann eins og litla baun framan við geirvörtuna. Ég fékk annað slagið ber í brjóstið í gegnum tíðina og ég var innan við fermingu þegar ég var skorin fyrst,“ segir Hrafnhildur og rifjar upp að hún hafi ekki vitað hvað þetta var, en þar sem þetta væru brjóstin þá væri það eitthvað dónalegt. Telur Hrafnhildur það mega rekja til þess að móðir hennar sýndi henni ekki mikla nánd sem barni og hlutirnir voru sjaldnast ræddir. Segir Hrafnhildur það líklega mega rekja til uppeldis og aðstæðna móður hennar. „Ég var því ekkert að segja mömmu frá þessu, en á endanum var þetta orðið svo stórt að ég varð að gera það. Mamma fór með mig til læknis, ég var skorin og góðkynja æxli tekið. Þetta var alltaf góðkynja, ætli hafi ekki verið tekin 6-7 úr mér. Þessi baun sem ég fann stækkaði þó og ég hringdi upp á krabbameinsdeild. Mér var sagt að ég yrði að vera með tilvísun frá lækni, þannig að ég fór til hans,“ segir Hrafnhildur. Segist hún hafa verið mjög lasin vorið 2019 og fengið lungnabólgu, en Hrafnhildur er með sjálfsofnæmissjúkdóminn Lupus eða Rauða úlfa og tekur lyf við honum.
„Læknirinn hélt að þetta væri bara af því ég hefði verið lasin og á pensilíni. Ég fór til hans í mars og í október mætti ég í bókaðan tíma til að taka hnút undir hendinni og segi við lækninn að berið sé enn í brjóstinu og hann segist taka það í leiðinni. Síðan hringir hann í mig og segir mér að það séu einhverjar frumubreytingar í berinu. Hann segir að annar læknir muni hringja í mig og ég gekk um gólf og beið eftir því símtali. Þegar krabbameinslæknirinn hringdi sagði hann að ég fengi tíma í nóvember og ég yrði skorin í janúar, þar sem þetta væri örugglega staðbundið. Ekki veit ég hvernig hann þóttist vita það, hann hafði aldrei skoðað mig og mér fannst nú full langt að bíða með aðgerð frá því í mars. Ég hefði bara viljað drífa mig, skera, búið, punktur!“